Vefþjóðviljinn 304. tbl. 18. árg.
Í fyrrakvöld var tilkynnt að Reykjavíkurborg hefði hlotið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
Í umsögn ráðsins sagði meðal annars um ástæður verðlaunanna:
Og þrátt fyrir að Reykjavík sé lítil borg ganga 87% ökutækja sveitarfélagsins fyrir rafmagni eða gasi. Við vitum ekki af neinum sveitarfélögum sem hafa nálægt því eins umhverfisvænan bílaflota.
Eins og jafnan þegar orðinu „umhverfisvænn“ er flaggað er í besta falli hálf sagan sögð.
Til að ná þessu hagstæða hlutfalli „umhverfisvænna“ ökutækja voru fólksbílar yfirstjórnarinnar í ráðhúsinu taldir með. En ekki 80 strætisvagnar sem hinir háu herrar leggja að almenningi að nota.
Ef að strætisvagnarnir hefðu verið taldir með hefði hlutfall „umhverfisvænna“ ökutækja samkvæmt aðferð Norðurlandaráðs lækkað úr 87% í 55%. En þeir voru ekki taldir frambærilegir sem „umhverfisvænir“ og því var þeim einfaldlega sleppt.
Sorpbílarnir ganga flestir (9 af 10 bílum) fyrir hauggasi svo þeir voru að sjálfsögðu taldir henta í talninguna en ekki bílar Faxaflóahafna eða slökkviliðsins sem eru að mestu leyti á hefðbundnu eldsneyti.
Það er því ljóst að raunverulegt hlutfall „umhverfisvænna“ ökutækja á vegum borgarinnar er ekki 87% heldur langt undir 50%.
Ef menn tækju orkunotkun þessara ökutækja færi þetta hlutfall líklega niður undir 10% því „umhverfisvænu“ bílarnir eru flestir smábílar en hinir eru stórir eyðslufrekir trukkar á borð við strætisvagnana.
Reykjavíkurborg kann að vera vel að umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs komin fyrir ýmislegt. En hvað „umhverfisvæn“ ökutæki varðar er einfaldlega haft rangt við, hvort sem það er vegna ófullnægjandi upplýsinga eða vinnubragða dómnefndar.