Vefþjóðviljinn 303. tbl. 18. árg.
Nýlega birti dagblað niðurstöður skoðanakönnunar sem það sagðist hafa gert, og sýndu þær að yfirgnæfandi meirihluti svarenda hefði sagst vera á móti því að leyft yrði að selja áfengi í matvöruverslunum.
Nú skal ekki fullyrt hversu mikið mark er takandi á skoðanakönnunum sem einstakir fjölmiðlar segjast hafa gert sjálfir, en ef horft er fram hjá því, þá verður að segja að niðurstöðurnar eru nokkuð merkilegar. Samkvæmt þeim má ætla að mikill meirihluti Íslendinga vilji ekki leyfa öðrum en ríkinu almenna áfengissölu.
Nú hefur enginn lagt til að fólki verði gert skylt að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Þeir sem ekki vilja eiga slík viðskipti gætu sleppt því. Þeir sem vilja óbreyttar reglur eru því ekki að hugsa um sjálfa sig að þessu leyti, heldur vilja að öðrum verði bannað að kaupa sér lokaða vinflösku af öðrum en ríkinu.
Hvaða rök ætli menn hafi fyrir því?
Ein rökin geta verið að „aukið aðgengi“ muni auka víndrykkju. Auðvitað er ekki ósennilegt að fólk neyti meira af vöru ef það á auðveldara með að kaupa hana. Hið „aukna aðgengi“ getur því „aukið drykkjuna“. En drykkju hverra? Annarra fullorðinna landsmanna. Vilja menn banna Sigga nágranna sínum að kaupa sér rauðvínsflösku í kjörbúðinni af því að það gæti orðið til þess að Siggi drykki úr fleiri flöskum á árinu? Getur verið að meirihluti landsmanna telji sig hafa rétt til að hafa vit fyrir Sigga að þessu leyti? Hver er þessi Siggi?
En ef menn samþykkja að þessi rök, „aukið aðgengi eykur neysluna“, nægi til þess að ríkinu einu verði leyft að selja áfengi, þá má spyrja hvort ekki megi nota þessi rök um fleiri vörur sem einhverjum finnst rétt að takmarka neyslu á. Hvernig er með rjóma? Smjör? Tölvuleiki sem drengir hafa gaman af? Er ekki allt of mikið „aðgengi“ að þessum vörum?
Auðvitað má búast við því að sala á vöru minnki ef ríkinu einu er leyft að selja hana. En vilja menn til lengdrar nota þá aðferð til að minnka söluna?
Sumir segja að í raun muni úrval víntegunda minnka. Stórverslanir muni taka þennan markað yfir og þær muni eins og venjulega selja fjöldaframleiddar vörur í meðalgæðum eða verri, en úrvalsvörur verði útundan því enginn hafi efni á því að liggja með slíkan lager.
Kannski er eitthvað til í því. En ætti þetta þá ekki við á fleiri sviðum. Hvernig væri að leyfa ríkinu einu að selja tónlist, bækur og fatnað? Nú má hver sem er selja föt, enda er bærinn fullur af fólki í ósmekklegum fötum. Verður ekki bara að fela ríkinu þetta, og þá geta smekkmenn loksins fengið falleg föt? Ef menn vilja ríkiseinkasölu á áfengi, til að tryggja að úrvalstegundir verði alltaf á boðstólum, er þá ekki skynsamlegast að ríkið taki bara yfir innflutning á vörum, til að tryggja úrval og gæði?