Laugardagur 1. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 305. tbl. 18. árg.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins tjáði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sig frá flokksstjórnarfundi um meint aðhald í ríkisfjármálum.

Aðhaldið í dag er pólitískt val forystu ríkisstjórnarinnar og það er gert til að grafa undan almannaþjónustunni, veikja hana, og auka líkurnar á því að við stöndum hér uppi með einkarekið heilbrigðiskerfi, ólíkar lausnir fyrir fólk eftir því hvort það er ríkt eða fátækt.

Á sama tíma var Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins reyndar að segja sínum flokksráðsmönnum hve mjög útgjöld til heilbrigðismála hefðu verið aukin upp á síðkastið og bætt fyrir bótaskerðingar fyrri stjórnar.

En óháð því hver náði að auka útgjöldin og hækka skattana mest með því sem stjórnmálamennirnir nefna aðhald má velta því fyrir sér hvort Árni Páll trúi því að hér séu við völd stjórnmálamenn sem leggja á ráðin um að „grafa undan almannaþjónustunni“ og klekkja á veikum fátæklingum.

Er ekki til eitthvað bitastæðara?