Vefþjóðviljinn 300. tbl. 18. árg.
Atvinnuleysi eykst enn í Frakklandi. Nú er um þrjár og hálf milljón Frakka skráð atvinnulaus og fjölgaði um 19.200 manns í síðasta mánuði. Atvinnumálaráðherrann í vinstristjórninni í landinu, François Rebsamen, segir nú að baráttan við atvinnuleysið sé töpuð. Hagvöxtur sé nauðsynlegur eigi að bæta ástandið.
Og hvað ætlar franska vinstristjórnin að gera næst? Hún ætlar að niðurgreiða 50.000 vinnusamninga, og er kostnaðurinn við þá aðgerð talinn nema um 200 milljónum evra sem aflað verður með skattlagningu. Í sósíalistastjórninni dettur líklega engum í hug að sú skattlagning muni hafa nein áhrif á atvinnulífið eða hegðun skattgreiðenda.
Í Frakklandi hefur lengi verið tekist á um efnahagsmál. Vinnuvikan hefur verið stytt, eftirlaunaaldur lækkaður. Ef reynt að breyta þessu í litlum mæli er efnt til óeirða. Verkföll eru tíð. „Mótmæli“, sem ætlað er að lama atvinnustarfsemi tímabundið, hafa lengi verið ótrúlega algeng. Allskyns reglur íþyngja atvinnulífinu. Franska ríkið skuldar gríðarlegar fjárhæðir. Fjárlagahallinn er mikill.
Og atvinnumálaráðherra sósíalista segir að baráttan við atvinnuleysið sé nú töpuð.
Ef menn vilja bæta lífskjör, bæði þannig að atvinnulausir fái vinnu og kjör þeirra sem hafa vinnu batni, eiga þeir að gefa atvinnulífinu frið til að dafna. Reyna ekki að troða pólitískum kreddum upp á það. Halda skattlagningu í lágmarki. Auka viðskiptafrelsi. Leyfa borgurunum og fyrirtækjunum að haga sínum málum eins og þau telja best hverju sinni. Skipta sér ekki af frjálsum samningum. Semja við önnur ríki um afnám tolla og niðurgreiðslna til einstakra atvinnuvega. Skipta sér ekki af því hvernig skipað er í stjórnir fyrirtækja. Skipa fyrirtækjum ekki að eyða tíma og fjármunum í að gera „jafnréttisáætlun“, eða hvað það heitir sem er í mestri tísku hjá ríkisfjölmiðlunum hverju sinni. Og þannig má telja afar lengi.
Baráttan við atvinnuleysið þarf ekki að tapast. Besta vopnið við atvinnuleysi er frjálst atvinnulíf og lágir skattar. En til að ná árangri á þeim sviðum verða stjórnmálamenn að þora að leggja til átaka við vinstriöflin.