Vefþjóðviljinn 301. tbl. 18. árg.
Hér hefur áður verið sagt frá bókinni The Rational Optimist: How Prosperity Evolves eftir breska líffræðinginn og vísindarithöfundinn Matt Ridley.
Nú hefur Almenna bókafélagið í samstarfi við RNH gefið bókina út á íslensku undir nafninu Heimur batnandi fer. Það er þakkarvert mótvægi við bölmóðinn sem dynur á landsmönnum.
Bölmóðurinn er reyndar ekki nýr af nálinni þótt hann kunni að hafa ágerst með málflutningi umhverfissinna á síðustu áratugum. John Stuart Mill lýsti þessari tilhneigingu mannsins svo:
I have observed that not the man who hopes when other despair, but the men who despairs when others hope, is admired by a large class of persons as a sage.
Eins og fyrr hefur verið sagt rekur Ridley hvernig flest hafi verið mannkyni í haginn undanfarin tvöhundruð ár. Allur kostur þorrans hafi snarbatnað, fæða, húsanæði, ný tæki og tækni, lyf og læknishjálp. Þetta hefur skilað sér í mikilli fólksfjölgun og lengri ævi.
Í bókinni sýnir hann hvernig flest lífgæði hafi snarlækkað í verði fyrir fjöldann. Eitt hefur þó ekki lækkað eins skarpt og vænta mætti en það er húsnæði. Ridley telur að það skýrist af ýmsum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Annars vegar stýri hið opinbera skipulagsmálum og skammti land til bygginga. Hins vegar hvetji það skuldsetningar við íbúðakaup með því að niðurgreiða vaxtakostnað. Hvort tveggja leiði til hærra íbúðaverðs. Þegar húsnæðisbólur springi geri hið opinbera svo sitt til að koma í veg fyrir verðlækkun, jafnvel þótt afskipti þess af húsnæðismálum séu í upphafi réttlætt með því að þannig megi auðvelda fólki að eignast húsnæði.
Vel rökstudd niðurstaða Ridleys er sú að maðurinn sé nú ríkari, heilbrigðari, hamingjusamari, friðsamari, jafnari og langlífari en nokkur fyrri kynslóð. Það megi þakka hinum einstæða sið mannsins að stunda viðskipti og verkaskiptingu.
Heimur batnandi fæst nú í í Bóksölu Andríkis. Verðið er kr. 3.590 og er heimsending innanlands innifalin í verðinu.