Helgarsprokið 26. október 2014

Vefþjóðviljinn 299. tbl. 18. árg.

Samkeppniseftirlitið hefur þá sérstöku stöðu að það bæði rannsakar og sektar fyrirtæki ef því sýnist eigin rannsókn leiða í ljós brot á samkeppnislögum.

Í Morgunblaðinu 17. október síðastliðinn rakti Heimir Örn Herbertsson hæstaréttalögmaður meðferð samkeppnisyfirvalda á Vífilfelli hf. undanfarin sjö ár.

Heimir Örn segir:

Þann 9. október sl. kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Vífilfelli hf. Sá sem hér heldur á penna gætti hagsmuna Vífilfells í málinu. Með dómi sínum staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála og þar með einnig ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli gegn Vífilfelli skyldi felldur úr gildi. Dæmt var að Vífilfell skyldi fá endurgreidda stjórnvaldssekt sem félaginu hafði ranglega verið gert að greiða, að fjárhæð 80 milljónir króna, með dráttarvöxtum auk málskostnaðar.

Forsaga málsins var sú að Samkeppniseftirlitið ákvað að eigin frumkvæði sumarið 2007 að taka til athugunar hvort Vífilfell væri markaðsráðandi fyrirtæki og hvort fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með viðskiptasamningum við viðskiptavini. Til þess að félag geti talist markaðsráðandi samkvæmt samkeppnislögum þarf það að búa yfir svo miklum efnahagslegum styrkleika að það geti hegðað sér á markaði án tillits til keppinauta, viðskiptavina og neytenda. Þótt Vífilfell sé öflugt fyrirtæki er augljóst að það getur ekki hegðað sér án tillits til aðalkeppinautar síns sem allir vita hver er og þaðan af síður án tillits til viðskiptavina sinna sem sumir hverjir eru meðal fjársterkustu fyrirtækja landsins. Engu að síður komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu í mars 2011 að Vífilfell væri markaðsráðandi og sektaði fyrirtækið vegna ætlaðra brota gegn samkeppnislögum um kr. 260 milljónir. Í október 2011 féllst áfrýjunarnefnd gagnrýnislaust á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að því frátöldu að álögð stjórnvaldssekt var lækkuð í kr. 80 milljónir.

Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki gert á því sérstaka könnun en eru þessar sektarfjárhæðir sem Samkeppniseftirlitið leggur á fyrirtæki ekki stundum nálægt því að vera árlegur rekstrarkostnaður eftirlitsins? Það er ekki ónýtt fyrir ríkisstofnanir að geta bent fjárveitingarvaldinu á að þær séu matvinnungar.

Og hvernig má það vera að eftirlitið leggi á 260 milljóna króna sekt en áfrýjunarnefndin 80 milljónir þegar efnisleg niðurstaða þeirra er hin sama? Það er talsverður munur þarna á.

Heimir Örn segir svo:

Í forsendum dóms Hæstaréttar kemur fram að krafa Vífilfells um ógildingu sé tekin til greina þar samkeppnisyfirvöld hafi ekki lagt grunn að réttri skilgreiningu markaðar málsins með fullnægjandi rannsókn af sinni hálfu en á þetta hafði Vífilfell margsinnis bent undir rannsókn málsins hjá samkeppnisyfirvöldum. Ef markaður máls er ranglega skilgreindur eru allar ályktanir málsins ómarktækar, svo einfalt er það.
Með dómi Hæstaréttar lauk rúmlega 7 ára baráttu Vífilfells sem valdið hefur félaginu miklum skaða í formi beins kostnaðar og ómælds tíma stjórnenda og starfsmanna sem betur hefði verið varið í uppbyggilegra starf. Mestu skiptir þó að með því að fyrirtækið hefur ranglega þurft að bera þann stimpil að vera markaðsráðandi um árabil hefur samkeppnisstaða fyrirtækisins skekkst með tilheyrandi tjóni fyrir það og á endanum neytendur.

Samkeppniseftirlitið var ekki lengi að birta viðbrögð sín við dómi Hæstaréttar. Búast hefði mátt við að eftirlitið bæðist afsökunar á mistökum sínum og gæfi jafnvel fyrirheit um bætt vinnubrögð. Það var öðru nær. Í tilkynningu eftirlitsins segir að rannsókn þess hafi verið fullnægjandi, sem vekur auðvitað furðu í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar. Jafnframt er með ómálefnalegum hætti látið að því liggja að meginsjónarmiðum Vífilfells í málinu hafi verið hafnað, svona eins og að Vífilfell hafi tapað málinu jafnmikið og Samkeppniseftirlitið. Klykkt er út með því að Samkeppniseftirlitið muni allt eins byrja allt málið upp á nýtt!

Það getur vart staðist að ríkisstofnun, sem runnið hefur svo illa á rassinn sem Samkeppniseftirlitið gerði í málinu gegn Vífilfelli, ætli að gera aðra atlögu að því.