Vefþjóðviljinn 295. tbl. 18. árg.
Stjórnlyndir menn munu aldrei hætta sjálfviljugir.
Nú hefur Líneik Sævarsdóttir alþingismaður lagt fram fyrirspurn á alþingi og spyr ráðherra ýmissa áríðandi spurninga um reglur um reiðhjólahjálma. Hún vill til dæmis fá að vita hvers vegna skylda til notkunar hjálmanna takmarkist við börn yngri en fimmtán ára. Hún vill fá að vita hvort ráðherrann telji „athugandi að breyta aldursmörkunum, t.d. þannig að börnum verði skylt að nota hlífðarhjálm til loka grunnskóla eða til 18 ára aldurs.“ Hún vill fá að vita hvort ráðherrann telji „tilefni til að fullorðnum verði einnig gert skylt að nota hlífðarhjálm“ og vill fá að vita hvort til séu „upplýsingar um fjölda slysa þar sem líkur eru á því að hlífðarhjálmur hafi komið í veg fyrir alvarleg slys“ eða dregið úr áverkum.
Í viðtali við mbl.is kom fram hjá Líneik að það skapaði „þversögn í grunnskólum, þar sem börn á elsta ári í grunnskólum séu ekki öll skylduð til að vera með hjálma og eftirfylgni á reglunum sé flóknari fyrir vikið.“ Sjálf sagðist Líneik hafa starfað sem skólastjóri áður en hún komst á þing, og þá reynt að segja öllum nemendum að hjóla með hjálm, en því miður, „það reyndist svona erfitt að fylgja því eftir alveg upp í gegnum grunnskólann vegna þess að hjálmaskyldan nær bara upp í fimmtán ára aldur.“
Sjálf sagðist Líneik telja „rökréttast“ að miða hjálmaskylduna við átján ára aldur, og raunar ætti að kanna hvort rétt væri að skylda alla hjólreiðamenn til að vera með hjálm.
Líklega er Líneik dæmigerður fulltrúi nýrrar kynslóðar skólastjóra. Það þarf bara að setja faglegar reglur um alla hegðun og þá meiðir enginn sig. Það er voða mikið vesen að elstu krakkarnir ráði þessu sjálfir og þá þarf ríkið bara að setja nýja reglu og skipa þeim öllum að vera með hjálm.
En af því að þingmenn eru flestir alveg ómóttækilegir fyrir röksemdum sem snúast um grundvallaratriði, en hafa mikinn áhuga á praktískum rökum, þá mættu þeir velta fyrir sér hvort það sé nú hagkvæmt að setja reglu eins og skólastjórann fyrrverandi langar til að fá. Dettur einhverjum í hug að dæmigerður sautján ára unglingur láti skólastjórann ráða því hvort hann hjólar með hjálm? Er ekki líklegra að unglingurinn hafi þetta bara eins og honum sýnist? Og hvað er þá unnið með því að hann venjist á að brjóta lög og reglur á hverjum degi, án þess að það hafi neinar afleiðingar? Og hvernig væri nú að treysta unglingnum til að gæta sín sjálfur, fremur en að bæta við enn einu sviðinu þar sem ríkið ætlar að hugsa fyrir hann?
En af því að Líneik spyr ráðherra hvort til séu tölur um slys þar sem hjálmur hefði dregið úr áverkum, þá má hvetja hana til að spyrja næst hvort vitað sé hversu mörgum slysum hefði verið afstýrt ef mönnum hefði einfaldlega verið bannað að hjóla. Er það ekki langöruggast?