Vefþjóðviljinn 293. tbl. 18. árg.
Segi menn svo að ríkisstjórnin geri ekkert. Segi menn að hún vinni ekki dag og nótt að því að láta afnema vond lög í landinu.
Nú hafa verið send út drög að nýjum lagabreytingum. Í tilkynningu frá stjórnvöldum er sérstaklega tekið fram að engar efnisbreytingar eigi að verða með lagabreytingunni heldur sé verið að breyta um orðanotkun í gildandi lögum.
Samkvæmt drögum að frumvarpi verður ekki lengur notað hið hræðilega orð „fatlaðir“. Í staðinn á að koma „fatlað fólk“.
Svo er kryddið í málinu, það sem allar fréttastofur taka upp. Úr einu hegningarlagaákvæði á að falla út orðið „fáviti“ en í staðinn standa „einstaklingur með þroskahömlun“. Svo má ekki lengur tala um „daufblinda“ heldur er núna rétt að segja „einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.“
Stjórnvöld gefa þá skýringu á tillögunum að þær séu undirbúningur að fullgildingu samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, afsakið, fatlaðs fólks. Nýlega fullgiltu þingmenn slíkan samning um réttindi barna, og sú ákvörðun er þegar farin að kosta verulegar fjárhæðir eins og fram kom í umræðum um mörg hundruð milljóna króna samning um rekstur meðferðarheimilis í Skagafirði. Og nú á að fullgilda nýjan samning í slíka veru. Enginn þingmaður mun horfa á samninginn gagnrýnum augum. Engum mun detta í hug að láta ógert að leiða hann í íslensk lög. Lögin verða samþykkt samhljóða og þingmenn hrósa sér í hástert fyrir framfaraskrefið.
En óháð því, þá er þetta lagafrumvarp sem stjórnvöld hafa nú sent út til umsagnar, skýrt dæmi um það þegar pólitískur rétttrúnaður tekur völdin. Það er ekkert að orðinu „fatlaður“. Það er engin ástæða til að breyta því orði í „fatlað fólk“. Orðið „fáviti“, eins og það er notaði í hegningarlögunum og var ekki fyrir neinum þar, er ekki almennt niðrandi. Orðið verður ekki niðrandi nema þegar það er notað um einhvern, sem það á ekki við um, og ætlað honum til háðungar. Þá verður orðið niðrandi í því samhengi, en ekki almennt. Rétt eins og það væri þá niðrandi að kalla hann „einstakling með þroskahömlun“. Á knattspyrnuvöllum er oft hrópað „Þú ert blindur, línuvörður“, en sú móðgun við línuvörðinn, afsakið aðstoðardómarann, er ekki til marks um að orðið blindur sé niðrandi. En sennilega má ekki tala um blindan lengur. Ef ekki má segja „fatlaður“ þá má ekki heldur segja „blindur“. Blint fólk, kannski. Hugsanlega er þó réttast að tala um fólk með algera vöntun úrvinnslu sjónrænna upplýsinga.