Vefþjóðviljinn 283. tbl. 18. árg.
Í vikunni gáfu starfsmenn Eftirlitsstofnunar Efta frá sér það álit að svonefndir ívilnunarsamningar sem íslensk stjórnvöld gerðu við fimm fyrirtæki á síðustu árum, hafi í raun verið ríkisstyrkur sem væri óheimill samkvæmt EES-samningnum.
Viðbrögð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðarráðherra við álitinu voru þau að hún segir að nýjustu ívilnunarsamningar, þeir sem núverandi ríkisstjórn gerir, séu öðruvísi en fyrri samningar og þeir standist EES-samninginn.
Nú má bæði álitið og viðbrögð ráðherrans liggja á milli hluta. Hins vegar er ástæða til að brýna stjórnvöld til að einbeita sér sem mest að því að bæta almenn skilyrði íslenskra borgara og fyrirtækja. Lækka skatta. Einfalda reglur. Lækka skatta. Auka samningafrelsi. Lækka skatta. Afnema vörugjöld. Lækka skatta. Afnema tolla. Lækka skatta.
Skattalækkanir gagnast öllum. Þær gagnast skattgreiðandanum sem hefur meira milli handanna. Þær gagnast öllum þeim sem skattgreiðandinn, sem hefur meira milli handanna, getur beint viðbótarviðskiptum sínum til. Fyrirtæki sem greiðir lægri skatta getur varið meira fé til að endurnýja tæki, fjölga starfsfólki, bæta kjör, bæta vinnuaðstöðu. Einnig getur það greitt út arð og eigendurnir fá þá peninga til ráðstöfunar. Einstaklingur sem greiðir lægri skatta á auðveldara með að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Hann getur veitt sér meira. Hann fer út að borða og veitingastaður þarf ekki fækka um einn kokk.
Er ekki óþarf að telja upp svo augljósa hluti? Nei, ekki meðan stjórnvöld gera næstum því ekki neitt í skattalækkunum. Þau þora ekki einu sinni að fækka tekjuskattsþrepunum, sem ríkisstjórn Jóhönnu fór með úr einu í þrjú. Tryggingagjaldið lækkar ekki um neitt sem máli skiptir.
Virðisaukaskatturinn á ekki að lækka heldur að eiga skatthlutföll þrepanna að breytast. Stjórnvöld ætla að vísu að afnema vörugjöld á fjölmörgum vörum og það verður vissulega hrósvert ef það gengur eftir.
En grundvallaratriðið er það að stjórnvöld þora varla að gera neitt í skattalækkunum.
Skattalækkanir, aukið frelsi og minni höft eru almennar aðgerðir sem yrðu lyftistöng fyrir efnahagslífið. Það eru mjög brýnar aðgerðir. Ívilnunarsamningar eru það ekki.