Mánudagur 6. október 2014

Vefþjóðviljinn 279. tbl. 18. árg.

Í dag eru sex ár liðin frá því Geir H. Haarde flutti ávarp til landsmanna. Í ávarpinu fjallaði hann um grafalvarleg mál en engu að síður virðist sem enginn muni eftir miklu úr því nema lokaorðunum, bæn Geirs fyrir landinu, og raunar virtist það næstum því vera raunin strax þá. Allir muna eftir þeim lokaorðum, jafnvel þeir sem ekki heyrðu ávarpið þegar það var flutt.

Fljótlega eftir hrun bankanna þriggja varð ljóst að margir vildu nýta bankahrunið sem tækifæri til að láta fleira hrynja. Eitt skýrasta dæmið er furðuleg atlaga sem gerð var að stjórnskipun landsins, þótt stjórnarskráin hafi engan þátt átt í bankahruninu. Sér reyndar ekki fyrir endann á þeirri atlögu enn, því núverandi ríkisstjórn hefur ekki enn stöðvað hana, frekar en annað sem vinstristjórnin gerði.

Eftir bankahrunið varð vinsælt að segja að nú yrðu menn að læra af því sem farið hefði illa og hefja gömul og góð gildi til vegs og virðingar. Ágirndin og vonin um skjótan gróða hefðu teymt menn fram af brúninni og nú mætti slíkt ekki líðast lengur.

Og hver eru nú gömlu og góðu gildin? „Heiðarleiki“ var mikið nefndur, en orðheldni og skilvísi hljóta að vera ofarlega á blaði líka. Og eru það ekki gildi sem æskilegt er að fólk hafi í hávegum sín á milli? Að fólk standi við skuldbindingar sínar en varpi ekki ábyrgð af þeim á aðra, að samningar standi og menn beri ábyrgð á orðum sínum.