Vefþjóðviljinn 274. tbl. 18. árg.
Þrír þingmenn vinstrigrænna hafa lagt til að sérstakur eignaskattur verði lagður á að nýju og nú skuli nota skattféð til að reisa nýtt sjúkrahús. Í áróðursskyni kalla þingmennirnir þennan nýja skatt auðlegðarskatt.
Um þetta er ýmislegt að segja. Þar á meðal það að síðasta ríkisstjórn innleiddi einmitt sérstakan eignaskatt sem hún nefndi „auðlegðarskatt“. Samkvæmt ákvörðun fyrri stjórnvalda var gildi skattsins tímabundið og rann út um síðustu áramót. Núverandi ríkisstjórn lét lögin standa óbreytt, en hefði getað afnumið þau í fyrra en ákvað að gera það ekki. Engu að síður tala þingmenn, álitsgjafar og verkalýðsforingjar um að núverandi ríkisstjórn hafi „afnumið auðlegðarskattinn“.
Tillaga þingmanna vinstrigrænna nú um að endurvekja skattinn, sem samkvæmt ákvörðun þingmeirihluta síðasta kjörtímabils rann út um síðustu áramót, ber það sterka áróðurseinkenni að skattféð á að nota til þess að byggja sjúkrahús. Slík tillaga er álíka mikið lýðskrum og ef einhver legði til að búsetustyrkur þingmanna af landsbyggðinni yrði aflagður en það fé sem myndi sparast rynni til Mæðrastyrksnefndar. Svo yrði látið eins og tillagan væri sérstaklega hugsuð fyrir Mæðrastyrksnefnd.
Þegar vinstristjórnin ákvað að leggja eignaskattinn á var deilt um það hvort það stæðist stjórnarskrána. Hæstiréttur dæmdi um það nýlega og niðurstaðan var athyglisverð. Þar sagði að við „úrlausn um hvort lagaákvæðin um auðlegðarskatt séu stjórnskipulega gild verður að horfa til þess við hvaða aðstæður lögin voru sett”. Þegar skatturinn hafi verið innleiddur hafi verið „við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum.” Eins og áður hefur verið bent á bendir þetta hugsanlega til þess að skatturinn sé ekki heimill við venjulegar aðstæður.
Fyrst eftir bankahrunið hafi verið slíkar neyðaraðstæður að það hafi veitt ríkinu ákveðið svigrúm sem það hefur almennt ekki. Ráðstafanir sem megi réttlæta í skamman tíma, þegar glímt er við „einstæðan vanda“, muni missa gildi sitt þegar mesta neyðin er liðin hjá. Þetta ættu þeir að hafa í huga sem vilja að slíkur skattur sé varanlegur í landinu.