Miðvikudagur 17. september 2014

Vefþjóðviljinn 260. tbl. 18. árg.

Það er eitthvað á reiki hjá álitsgjöfunum hvernig Svíþjóðardemókratar eru taldir. Eina rökrétta skýringin virðist sú að þeir séu í raun vinstrimenn. Það er að segja Svíþjóðardemókratarnir, já og álitsgjafarnir.
Það er eitthvað á reiki hjá álitsgjöfunum hvernig Svíþjóðardemókratar eru taldir. Eina rökrétta skýringin virðist sú að þeir séu í raun vinstrimenn. Það er að segja Svíþjóðardemókratarnir, já og álitsgjafarnir.

Svíar kusu um helgina og eins og aðrar norrænar þingkosningar hafa þessar talsvert verið ræddar á Íslandi. Álitsgjöfum hér og víða annars staðar ber saman um að mjög vondur flokkur, Svíþjóðar-demókratar, hafi fengið allt of mikið fylgi, um 13% atkvæða og 49 þingmenn. Flokkurinn varð þriðji stærsti flokkur Svíþjóðar. Þessi flokkur sé „öfgahægriflokkur“, og með slíkum flokki megi enginn vinna.

Annað sem flestum álitsgjöfum ber saman um, er að Svíar hafi hallað sér til vinstri í kosningunum. Hægristefnu Reinfeldts hafi verið hafnað, nú muni Jafnaðarmannaflokkurinn leiða minnihlutastjórn og horfið verði frá skattalækkunum og einkavæðingu.

Þetta eru merkilegar kenningar þegar þær eru notaðar um sömu kosningaúrslitin.

Fyrst er sjálfsagt að spyrja hinnar nauðsynlegu spurningar þegar álitsgjafar og fréttamenn segja að einhver flokkur sé öfgahægri-flokkur. Hvaða viðhorf flokksins eru til hægri? Berst flokkurinn fyrir frelsi einstaklingsins? Vill hann að ríkið geri ekki upp á milli fólks? Vill hann einkavæðingu ríkisfyrirtækja? Vill hann almennar skattalækkanir? Greiðslu opinberra skulda? Meira frjálsræði í atvinnulífinu? Færri bönn, meira sjálfræði hvers manns?

Þetta eru hefðbundin baráttumál hægriflokka, svo líklega vill öfgahægri-flokkur ganga mun lengra í þessum málum en „hófsamir“ hægriflokkar. Hvernig er með Svíþjóðar-demókratana, hvað vildu þeir lækka skattana mikið? Tuttugu prósent örugglega. Þetta er nú öfga-hægriflokkur.

En ef það er nú rétt hjá álitsgjöfum og fréttamönnum að þessi flokkur sé langt til hægri, hvernig er þá hægt að segja að Svíar hafi hallað sér til vinstri í kosningunum? Jafnaðarmenn, Græningjar og Vinstriflokkurinn fengu samanlagt um 43,7% atkvæða, en Hægriflokkur Reinfeldts, Miðflokkurinn, Frjálslyndir og Kristilegir demókratar fengu samanlagt um 39,3% atkvæða. Ef Svíþjóðardemókratar, með 13%, eru hægriflokkur, ætti þá ekki að líta svo á að um 52% Svía hafi kosið hægriflokka en um 44% hafi kosið vinstriflokka? Væri þá ekki nær að Reinfeldt myndaði minnihlutastjórn, fremur en Jafnaðarmannaflokkurinn, jafnvel þótt menn vildu ekki hafa demókratana með í stjórninni?

En þetta dettur engum í hug. Svo alvara er mönnum ekki þegar þeir kalla Svíþjóðardemókratana hægriflokk. Það er bara þegar á að útiloka þá frá öllum áhrifum. Þegar á að meta hvort fleiri hafi kosið hægriflokka eða vinstriflokka, þá eru þeir ekki lengur hægriflokkur.