Vefþjóðviljinn 259. tbl. 18. árg.
Fyrir nokkrum árum tóku íslenskir stjórnmálamenn miklu ástfóstri við Dieselbíla og töldu þá skyndilega miklu „umhverfisvænni“ og „visthæfari“ en sambærilega bíla knúna bensíni. Þetta skilaði sér í lögum, reglum, sköttum og fríðindum:
* Vörugjöld á bíla við innflutning voru upp frá því höfð þannig að meiri líkur væru á því að almenningur keypti sér Dieselbíl en bensínbíl.
* Bifreiðagjöldin eru sömuleiðis höfð lægri á Dieselbíl en sambærilegan bensínbíl.
* Gjöld á eldsneyti eru að hluta á þennan máta einnig.
* Jafnvel skilyrði fyrir því að fá „frítt í stæði“ í Reykjavík voru látin falla betur að litlum Dieselbílum en bensínbílum. Það var talið merkilegt „grænt skref“ fyrir mannkyn.
Þetta mikla dekur við Dieselbílinn – og samsvarandi óvild í garð bensínbílsins – var að sjálfsögðu ekki séríslensk meinloka heldur hluti af tískubylgju í evrópskum stjórnmálum þar sem allt var miðað við útblástur koltvísýrings en algerlega horft framhjá öðrum útblæstri sem hefur bein áhrif á manninn, þar á meðal sótögnum sem eru miklu meiri úr Dieselbílum en bensínbílum og lengi hefur verið þekkt.
Nú er hins vegar að renna upp fyrir ráðamönnum vítt og breitt í Evrópu að þetta var algert óráð og sumir segja jafnvel alvarleg atlaga gegn heilsu fólks í borgum.
Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá því að franski sósíalistinn og umhverfisráðherrann Ségolène Royal vill einfaldlega útrýma Dieselbílum. Boris Johnson borgarstjóri í London stakk svo nýlega upp á því að eigendum Dieselbíla yrðu greiddar nokkur hundruð þúsund krónur fyrir að losa sig við sótrokkana sem fólk var narrað til að kaupa í nafni umhverfisverndar.
Það má vera öllum ljóst að þessi stefna hefur reynst hrikaleg mistök. Milljónum manna var talin trú um að það væri að gera það eina rétta, væri umhverfisvænt, með því að kaupa Dieselbíl. Þeir eru auðvitað miður sín nú þegar þeim er sagt að þeir mengi meira.
Hvenær ætla íslenskir stjórnmálamenn að viðurkenna mistökin og hætta að hvetja menn til kaupa á Dieselbílum?
Og kannski draga þann lærdóm af þessu í leiðinni að sama hve vel meinandi og gáfaðir þeir séu þá ættu þeir að láta það eiga sig að stýra neyslu annars fólks?