Mánudagur 15. september 2014

Vefþjóðviljinn 258. tbl. 18. árg.

Norðurlanda-samanburðurinn er vinsæll hjá þrýstihópunum. Þegar heimta á aukin opinber framlög til einhverra málaflokka þá er oft gripið til hans, frekar en annarra röksemda. „Við eyðum bara alls ekki eins miklu í minn málaflokk og Svíar gera. Þarna verðum við að taka okkur á“, er dæmigerður málflutningur þeirra sem telja að „við“ eigum að borga meira til þeirra sjálfra.

Fréttamenn flytja boðskapinn athugasemdalaust og eru jafnvel sjálfir mikið fyrir að afla „samanburðartalna“ úr Skandinavíu. Minni áhugi er yfirleitt á því hvað önnur lönd heimsins eyða í sama málaflokk, enda eru horfa fréttamenn næstum alltaf á mál frá sjónarhóli þeirra sem eyða, en ekki þeirra sem greiða.

Nú hefur ríkisstjórnin lagt til að sá tími, sem hver og einn getur verið á atvinnuleysisbótum, verði styttur um sex mánuði, úr þremur árum í tvö og hálft. Fréttamenn hafa lítinn áhuga á því að jafnvel eftir slíka styttingu þá yrði þetta tímabil mun lengra á Íslandi en í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi, sem þó þykja oft merkileg samanburðarlönd.

Síðast í gær var haft eftir formanni Landssamtaka íslenskra stúdenta að það væri „sláandi“ að Ísland „fjárfestir minnst allra Norðurlandanna í menntun“.

En hvers vegna eiga öll lönd að eyða sama hlutfalli fjár í sömu málaflokka? Á kannski líka að samræma aðra hluti milli þessara sömu landa? Eiga Íslendingar kannski að vinna jafn mikla olíu úr sjó og Norðmenn eða framleiða jafn marga bíla og gert er í Svíþjóð?
Annars „fjárfestir“ Ísland gríðarlega „í menntun“. Þannig er Háskóli Íslands ekki í meiri fjárþörf en svo að hann heldur uppi vandaðri kennslu í kynjafræði og þaðan útskrifast fjöldi vísindamanna sem síðan tekur til hendinni hjá Jafnréttisstofu, enda er í nýju fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir verulegri aukningu framlaga til Jafnréttisstofu. En það er auðvitað hluti af „dólgafrjálshyggjunni“ sem Katrín Jakobsdóttir talar um og fréttamenn sjá ekkert athugavert við.

Kynjafræðingar jafnréttisstofu geta því þotið um borgina í enn fleiri leigubílum á næsta ári. Ríkisstjórnin þorir ekki annað en að hækka framlögin. Hún þorir ekki einu sinni að skera niður hjá Ríkisútvarpinu.