Föstudagur 12. september 2014

Vefþjóðviljinn 255. tbl. 18. árg.

Það var dæmigert fyrir íslenska stjórnmálaumræðu þegar fréttastofur slógu því upp að núverandi forsætisráðherra hefði á síðasta kjörtímabili látið stór orð falla um það sem hann taldi vera áætlanir þáverandi ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á matvæli. Ekkert hefði verið að því að rifja þetta upp, ef það samhengi hefði fylgt að þá hafi ekki, eins og er hins vegar nú, verið gert ráð fyrir lækkun hærra virðisaukaskattsþrepsins og öðrum aðgerðum sem sem nú eru boðaðar.

Án þess samhengis var upprifjunin ósanngjörn þótt sjálfsagt hafi fáum á fréttastofunum þótt það.

Það er mjög æskilegt að einfalda skattkerfið, fækka undanþágum og lækka skatthlutfall. Sérstaklega er mikilvægt að lækka skatthlutfall. Það hefði verið mjög æskilegt að lækka hærra virðisaukaskattsþrepið mun myndarlegar en nú er gert ráð fyrir, og ættu þingmenn að huga að slíkri breytingu þegar fjárlagafrumvarpið kemur til meðferðar. Þeir sem hafa áhyggjur af því að ekki sé nóg gert til að vega á móti hækkum lægra þrepsins, geta lagt til aukna lækkun hærra þrepsins.

Eins og búast mátti við hafa margir gagnrýnt þá tillögu að hækka virðisaukaskatt af matvöru, og sú gagnrýni mun aukast þar sem þingmenn Framsóknarflokksins lýstu því yfir að tillagan væri sett fram til að kanna viðbrögðin og henni yrði breytt ef þau yrðu slæm.

Menn segja réttilega að matur sé mönnum lífsnauðsynlegur. Menn geti neitað sér um flest nema mat.

Þetta er auðvitað rétt en það þýðir samt ekki að sérstakt skatthlutfall fyrir matvæli sé besta leiðin til að hjálpa þeim sem minnst efni hafa. Sú aðferð er nefnilega ekki mjög markviss til þess.

Virðisaukaskattur á matvæli er ekki aðeins reiknaður af einhverjum fábreyttum innkaupum þess sem mest þarf að spara við sig. Nautalundir, lambafillet, humar og kavíar bera aðeins 7% virðisaukaskatt, af því að matur er lífsnauðsynlegur.

Ef menn vilja að hið opinbera hjálpi þeim efnaminnstu, og það vilja flestir, eru þá ekki miklu skynsamlegri leiðir til þess en sérstakt skattþrep fyrir öll matvæli? Greiddar eru örorkubætur, ellilífeyrir, barnabætur, atvinnuleysisbætur, og alls kyns aðrar bætur til þeirra sem höllum fæti þykja standa. Er ekki einfaldara að beina markvissum aðgerðum að þeim sem raunverulega þurfa hjálp, fremur en að forstjórinn sem kaupir sér nautalund á mánudegi og humar á þriðjudegi fái í raun skattaafslátt af kaupum á þeim lífsnauðsynjum?

Besta kjarabótin er svo almennar skattalækkanir. Allir borga skatta og allir njóta góðs af skattalækkunum. Ríkisstjórnin ætti að hafa frumkvæði að verulegum skattalækkunum sem myndu stórbæta lífkjör hins almenna manns, auka sjálfræði hans um eigin mál og verða mikil lyftistöng fyrir efnahagslífið.