Vefþjóðviljinn 253. tbl. 18. árg.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fundið stórmerkilega leið til að koma sér undan því að standa fyrir óvinsælum niðurskurði ríkisútgjalda. Þeir segja að skuldavandi ríkisins sé svo mikill að hann verði ekki sigraður með niðurskurði. Þess vegna þurfi að selja ríkiseigur á næstu árum.
Það er jákvætt að ráðherrarnir átta sig á nauðsyn þess að greiða skuldir ríkisins niður. Sú kenning þeirra, að þar sem skuldavandinn sé meira en svo að hann verði leystur með niðurskurði að þá þurfi ekki að hefja stórfelldan niðurskurð, er hins vegar alger vitleysa.
„VÍSA-reikningurinn minn er orðinn svo hár að ég verð greinilega að gera eitthvað róttækara en að spara. Þess vegna þarf ég ekki að spara. Best að ég kaupi þennan sófa hérna.“
Ríkisstjórn sem áttar sig á því að skuldavandi ríkisins er gríðarlegur hlýtur að leggja til umfangsmikinn niðurskurð ríkisútgjalda. En það gerir núverandi ríkisstjórn ekki. Það er meira að segja gefið í á ýmsum sviðum, ekki síst þeim sem heyra undir menntamálaráðherra. Þar er talsverð hækkun umfram verðlagsþróun og launahækkanir. Það er aukið opinbert fé til kvikmyndagerðar. Það er aukið fé til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er aukið fé í ótal háskóla. Það er ekki einu sinni reynt að spara hjá Ríkisútvarpinu.
Ekki er hróflað við tekjuskattinum. Áfram stendur fjölgun skattþrepa og næstum öll hækkunin sem vinstristjórnin stóð fyrir. Breytingar á virðisaukaskatti snúast um einföldun kerfisins en ekki skattalækkun sem máli skiptir. Þannig má áfram telja.
Svo er fólki boðið upp á orðstóra stjórnarandstæðinga sem tala um „nýfrjálshyggjutilraun“ og „dólgafrjálshyggju“ eins og Katrín Jakobsdóttir gerir.
Eina frjálshyggjutilraunin sem er gerð, er sú að leggja fram frumvarp án nokkurrar frjálshyggju sem máli skiptir.
Auðvitað er frumvarpið ekki alvont. Það er mun betra en það hefði orðið undir áframhaldandi stjórn Jóhönnu og Steingríms. En það er mun verra en það ætti að vera undir stjórn Sigmundar og Bjarna. Það vantar í það niðurskurðinn til að byrja að raunverulega að lækka skuldir ríkisins. Og það vantar í það skattalækkanirnar sem hleypa myndu auknum krafti í efnahagslífið og gera fólk meira sjálfráða um sjálfsaflafé sitt.