Vefþjóðviljinn 232. tbl. 18. árg.
Eins og Vefþjóðviljinn ræddi í síðstu viku eru sumir hugfangnir af kynjahlutföllum. Fréttablaðið hefur nú grafið upp gríðarlega alvarlegt kynjahlutfall enda setti blaðið frétt um það á forsíðu sína.
Það er ekki jafnt kynjahlutfall í plötusnúðastétt í miðbæ Reykjavíkur.
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins segir:
Af þeim 56 plötusnúðum sem troða upp í miðbæ Reykjavíkur í ágúst eru 36 karlmenn og 20 kvenmenn samkvæmt óformlegri könnun Fréttablaðsins. Ef könnunin er borin saman við lista raftónlistartímaritsins DJ Mag yfir hundrað bestu plötusnúða heims kemur fram að Ísland er betur statt en mörg önnur lönd. Á þeim lista er hlutfall kvenna aðeins fjögur prósent.
Samkvæmt forsíðufréttinni, sem byggð er á „óformlegri könnun“ Fréttablaðsins á því hverjir munu troða upp í „miðbæ Reykjavíkur“ í ágúst, eru 20 plötusnúðar af 56 konur. Það finnst Fréttablaðinu auðvitað kalla á forsíðufrétt. Auðvitað er nauðsynlegt að jafn margar konur og karlar séu plötusnúðar, annað er misrétti og kallar á aðgerðir Jafnréttisstofu. Eygló er örugglega með frumvarp í smíðum og það mun renna í gegnum þingflokk Sjálfstæðisflokksins eins og ekkert sé.
Og af því að kynjahlutföll skipta máli þá yrði betra fyrir alla ef nokkrir karlar í plötusnúðastétt hættu störfum. Ef tíu karlar hættu að þeyta skífum þá yrði kynjahlutfallið jafnara og það er auðvitað það sem mestu skiptir. DJ Darri hættir og ástandið batnar strax aðeins.
Þetta skiptir ekki aðeins máli fyrir þá sem skemmta sér hjá plötusnúðunum. Þetta skiptir allt landið máli. Eins og Fréttablaðið segir í forsíðufrétt sinni þá er „Ísland betur statt en mörg önnur lönd“, ef miðað er við lista tímaritsins DJ Mag. Önnur lönd eru verr stödd en Ísland og verða að grípa til róttækra aðgerða til að breyta kynjahlutfalli í plötusnúðasétt.
Að vísu er ekki víst að kynjahlutfallið í öðrum löndum sé eins slæmt og Fréttablaðið heldur. Listinn í DJ Mag var nefnilega ekki um fjölda karla og kvenna í plötusnúðastétt heldur var þar raðað upp hundrað bestu plötusnúðum heims. Af þeim reyndust 96 karlar en 4 konur, og sýnir það auðvitað áhrif feðraveldisins á þá sem skrifa um plötusnúða, eins og vafalaust verður fjallað um á næsta Jafnréttisþingi og Víðsjá mun segja frá.