Vefþjóðviljinn 228. tbl. 18. árg.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins var í heimsókn á Íslandi í vikunni og sagði brosandi íslenskum ráðherrum að Ísland ætti að auka framlög sín til bandalagsins.
Á því máli eru tvær hliðar. Atlantshafsbandalagið hefur tryggt öryggi Evrópu og annarra Vesturlanda allt frá stofnun sinni. Íslendingar geta þakkað aðildinni að Nató og varnarsamningnum við Bandaríkin fyrir að landið hélst öruggt á tímum kaldastríðsins og lenti aldrei undir valdi Sovétríkjanna.
Auðvitað reyndu vinstriöflin að grafa undan utanríkisstefnunni og þeir sem stóðu fremstir í baráttunni fyrir vestrænni samvinnu voru árum saman undir markvissum níðskrifum, upphrópunum og hótunum.
En á þeim árum beit slíkt aldrei á forystumenn Sjálfstæðisflokksins.
Íslendingar hafa þannig mjög ríka ástæðu til að vera Atlantshafsbandalaginu þakklátir og hlusta með jákvæðum hætti á þær óskir sem þaðan koma.
Hin hlið málsins er hins vegar sú að á síðustu árum hefur Nató staðið fyrir ýmsum aðgerðum sem ekki er endilega hægt að rökstyðja að samrýmist tilgangi þess. Fyrst í Serbíu og svo sérstaklega í Líbýu.
Þannig hafa íslensku ráðherrarnir einnig haft tilefni til að segja framkvæmdastjóra Nató að bandalagið ætti að einbeita sér að raunverulegum tilgangi sínum í stað þess að biðja um meiri framlög til að sinna öðrum verkefnum.
Og hvaða líkur eru á því að íslensku ráðherrarnir hafi rætt þessi mál af alvöru við framkvæmdastjóra Nató? Þær eru engar.