Vefþjóðviljinn 229. tbl. 18. árg.
Samkvæmt fréttum mun aðstoðarmaður innanríkisráðherra verða ákærður fyrir að hafa fært fjölmiðlum gögn um persónulega hagi fólks sem ráðuneytið hafði safnað saman.
Aðstoðarmaðurinn neitar að hafa gert þetta.
Það er hins vegar ekki um það deilt að fjölmiðlarnir komust yfir hinar persónulegu upplýsingar og hagnýttu sér þær.
Er það ekki tilefni til ákæru að menn notfæri sér slík gögn? Í flestum tilvikum gera menn sér grein fyrir að þeir geta ekki notað illa fengna hluti nema það hafi afleiðingar í för með sér. En fjölmiðlar virðast undanþegnir þeirri almennu reglu og velsæmiskröfu.
Svo er þarna um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða um fólk. Sá sem lak upplýsingunum til fjölmiðlanna gerði rangt, ekki síst þar sem honum mátti vera ljóst að fjölmiðlarnir gætu fleytt upplýsingum áfram til mörg þúsund lesenda. En það breytir því ekki að það voru fjölmiðlarnir sem fullkomnuðu óþægindin fyrir fólkið sem þarna átti í hlut. Það voru fjölmiðlarnir sem dreifðu upplýsingunum inn á flest heimili landsins.
Fjölmiðlarnir hafa jafnframt neitað að upplýsa lögreglu og lesendur sína um hver það var sem afhenti gögnin þótt það hafi þótt ein mikilvægasta spurning íslenskrar þjóðmálaumræðu undanfarin misseri. Hvað varð um svokallaðar skyldur þeirra við almenning, sem þeir bera oft fyrir sig? Eru þær bara eftir hentugleik?
Það er þó jákvætt við þetta mál allt saman að framvegis má vonandi treysta því að „lekar“ verði teknir föstum tökum af lögreglu og ákæruvaldinu. Það er framför frá því á upplausnarárunum fyrst eftir bankahrunið þar sem það þótti nánast sjálfsagt eða jafnvel hetjudáð að dreifa hvers kyns persónulegum upplýsingum um víðan völl.
Eitt slíkt mál gæti verið árviss leki ríkisskattstjóra á svokölluðum „hákarlalista“ til fjölmiðla. Skattstjórinn lætur starfsmenn sína vinna minnsblað um fjárhagsmálefni 30 einstaklinga upp úr upplýsingum sem embætti hans er treyst fyrir og sendir það til fjölmiðla. Um leið hlýtur svo dreifing fjölmiðla á upplýsingunum að koma til skoðunar.