Fimmtudagur 14. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 226. tbl. 18. árg.

Hjólreiðar eru mjög ágætar þótt tilgerðarlegir stjórnmálamenn og tilvonandi trendsettarar hafi gert sitt besta til að spilla ánægjunni af þeim á undanförnum árum. Það er alger andstæða hjólreiða, að þjóta  áfram fyrir eigin afli, að gera þær að viðfangsefni afskiptasamra stjórnmálamanna. Einstaklingurinn á hjólinu og stjórnmálamaðurinn eru eins og svart og hvítt.

Þess er minnst í The Wall Street Journal í dag að Robin Williams var mikill áhugamaður um hjólreiðar, átti dágott safn hjólhesta, hjólaði mikið og sótti reiðhjólasýningar og mót, á einkaþotu sinni ef svo bar undir.

Greinarhöfundur í The Wall Street Journal átti eitt sinn viðtal við Williams um grín og glens en í lok viðtalsins barst talið að hjólreiðum. Aðspurður hvers vegna honum þætti svo gaman að hjóla svaraði Williams: Hjólreiðar eru það næsta sem þú kemst því að fljúga.