Vefþjóðviljinn 225. tbl. 18. árg.
Menn hafa ekkert lært. Minna en ekkert.
Innstæðutryggingar samkvæmt tilskipun Evrópusambandins reyndust haldlitlar í efnahagshruninu 2008. Þá voru þær sagðar 20 þúsund evrur per reikning.
Nú hefur ESB því skipað svo fyrir að kerfi sem gat alls ekki staðið undir 20 þúsund evra tryggingu skuli bera 100 þúsund evra ábyrgð.
Engum sögum fer af því hvort Íslendingar hafi haft uppi efasemdir um þessa tillögu þegar hún kom fyrir sameiginlegu EES nefndina svonefndu.
En nú eru þingmenn þó að spyrna við fótum. Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir í Fréttablaðinu í dag:
Þarna er verið að tala um að setja 0,8 prósent af innistæðum í sjóð en hérna er mikil samþjöppun í bankakerfinu ólíkt því sem er víða erlendis. Fáir stórir bankar, þrír stærstu bankarnir með 90 prósent af markaðnum. Það leiðir af eðli máls að það er ekki hægt að búa til tryggingakerfi á svo fábreyttum markaði.
Það má kannski líka spyrja að því hvers vegna ríkisvaldið eigi að hlutast til um tryggingar fyrir hjón sem eiga sitt hvorn reikninginn með 100 þúsund evrum (samtal um 32 milljónir króna). Hvers vegna getur þetta fólk ekki keypt sínar trygginar sjálft, ef það svo kýs, eins og þeir sem eiga allt sitt í 32 milljóna króna blokkaríbúð?