Þriðjudagur 12. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 224. tbl. 18. árg

Kynjahlutföllin eru mörgum mikilvægt hugðarefni. Jafnvel í miðju bankahruni horfðu margir á þau. Þegar ákveðið var að skipa rannsóknarnefnd Alþingis eftir bankahrunið dróst að ljúka skipun nefndarinnar. Einn varaforseta Alþingis upplýsti þá í viðtali að búið væri að velja tvo nefndarmenn og nú væri leitað að konu til að vera með þeim. Ekki var nægilegt að finna einstakling sem gæti bætt einhverju sem máli skipti við það sem hinir tveir legðu til, heldur varð þriðji nefndarmaðurinn að vera af réttu kyni.

Þegar Geir H. Haarde hélt blaðamannafund til að fara yfir stöðuna átti þingfréttaritari Morgunblaðsins fyrstu spurninguna: Hvernig verður gætt jafnræðis milli kynja í nýjum bankaráðum?

Það er ekki aðeins á Íslandi sem menn hafa áhyggjur af kynjahlutföllunum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði frá því nýlega að hann hefði fengið bréf þar sem hann var spurður hvers vegna ekki væri mynd af konu á peningaseðlum í Bandaríkjunum. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í gær bætti forsetinn því við að það væri „bara ansi góð hugmynd“ að setja mynd af konu á einn seðilinn. Í framhaldi af því gerði tímaritið Time skoðanakönnun um það hvaða kona ætti að fá þann heiður að verða fyrsta bandaríska konan á peningaseðli. Átta frægar konur voru í boði, og eflaust kemur það mörgum á óvart að langefst, með 55,59% atkvæða, varð rithöfundurinn Ayn Rand.

Í Bóksölu Andríkis má kaupa þrjár bækur eftir Ayn Rand, þar á meðal hina áhrifamiklu Atlas shrugged, sem í íslenskri þýðingu nefnist Undirstaðan. Ógleymanleg lesning fyrir konur og karla.