Miðvikudagur 16. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 197. tbl. 18. árg.

Í bílablaði Morgunblaðsins í gær var fjallað um þá staðreynd að Reykjavíkurborg leyfir tilteknum bifreiðategundum að standa frítt í bílastæðum í borginni. Þetta eru bifreiðar sem gefa frá sér minna en 120g af koltvíssýringi á hvern kílómetra. Í greininni segir að rafmagnsbíllinn Tesla Model S, sem engan útblástur gefi frá sér, falli engu að síður ekki undir reglurnar, þar sem hann sé of þungur.

Nú má auðvitað skilja óánægju eigenda Tesla bílanna, þegar bílarnir gefa engan útblástur frá sér en mega samt ekki leggja gjaldfrjálst í stæði sem ætluð eru þeim sem eru með takmarkaðan útblástur. En það er samt ekki versti gallinn við þessar reglur borgaryfirvalda.

Reglurnar eru skýrt dæmi um það sem getur gerst þegar borgarfulltrúar skilja ekki hvað er hlutverk sveitarfélaga og hvað ekki.

Það er ákveðin ástæða fyrir gjaldtöku í ákveðnum bílastæðum. Hún snýst um eðlilega notkun á stæðunum og er til að auka líkurnar á að sem flestir komist að í eftirsóttustu stæðin. Skoðanir borgarfulltrúa á útblæstri skipta þar ekki máli. Það er ekki hlutverk sveitarstjórnarmanna að skipta sér af slíku og bílastæðagjöld eru ekki réttmætt vopn í þeirri baráttu. Bílastæðagjöld eru einfaldlega gjald fyrir notkun á stæði, en snúast ekki um annað.

Þessi misserin er í tísku að tala um útblástur og það kann auðvitað að rugla einhverja. En segjum nú að borgarfulltrúar væru á þeirri skoðun að einungis ætti að aka börnum um í stórum og þungum bílum, því þeir séu öruggari en litlir. Öryggi barnanna fyrir öllu. Dettur einhverjum í hug að borgarfulltrúar mættu ákveða að ekki þyrfti að borga stöðumælagjöld fyrir stóra bílar með barnabílstól aftur í? Auðvitað dytti engum það í hug. Allir myndu segja, ef slík regla yrði lögð til, að bílastæðagjöld væru hugsuð til að stuðla að hagkvæmari notkun stæðanna, en ekki til að ná fram markmiðum borgarfulltrúa á öðrum sviðum. Sviðum sem ekki heyra undir sveitarfélög.