Þriðjudagur 8. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 189. tbl. 18. árg.

Þær eru ekki beint frumlegar ástæðurnar fyrir því að fallbyssunum er rétt einu sinni enn beint að hinum vannýtta en ört minnkaði tekjustofni spendýra sem kallast skattgreiðendur. „Þjóðhagsleg hagkvæmni“, „samfélagslegur ávinningur“ og „spennandi verkefni“.

Fer ekki skýrslugerð um þessa hraðlest að verða ein ófrumlegast atvinnubótavinna í bitlingasögu landsins? Hvað þarf eiginlega að skrifa margar skýrslur um þetta?

Það er nýbúið að verja litlu broti af bensínsköttum landsmanna til þess að gera akstursleiðina suður með sjó þá greiðfærustu og öruggustu á landinu. Með nokkrum lagfæringum til viðbótar mætti einnig hækka hámarkshraða á leiðinni verulega þegar veðuraðstæður leyfa. Rétt eins og skýrsluhöfundar viðurkenna sjálfir verður enginn tímasparnaður fyrir bíleigendur á höfuðborgarsvæðinu af því að taka lestina suður til Keflavíkur. Hann yrði minni en enginn með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar alla leið og hærri hámarkshraða.

Rútufyrirtæki bjóða þar að auki mjög sveigjanlega og góða þjónustu fyrir ferðamenn sem þurfa að komast á hótel og gistiheimili. Þeim er einfaldlega ekið upp á hótel.

Hvernig fá menn það þá út að það borgi sig að verja yfir 100 milljörðum til viðbótar í stofnkostnað við nýja og ósveigjanlega samgönguleið milli Reykjavíkur og Keflavíkur? Það er áætlunin, eins og allir vita verður endanlegur kostnaður miklu meiri, það er reglan hjá hinu opinbera hvort sem um svokallaða einkaframkvæmd er að ræða eða ekki.

Miðað við 7% vexti ríkisins og án fyrninga eru þetta 7 milljarðar á ári. Það er ígildi 3,6 milljóna ferða með flugrútunni. Ef lestin fyrnist um 4% á ári eru það 5,6 milljón farþega sem er íbúafjöldi Danmerkur.

Og hvar verða breiðurnar af bílastæðum í Vatnsmýrinni ef lestin á að hafa endastöð við BSÍ? Eða er ætlunin að menn hjóli með ferðatöskurnar og fríhafnarbrennsann heim og upp á hótel?