Miðvikudagur 9. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 190. tbl. 18. árg.

Þátttöku brasilíska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu lauk í gærkvöldi með afgerandi hætti. Að vísu á liðið enn eftir að spila um bronsverðlaunin, en þeirri þátttöku sem Brasilíumenn höfðu ætlað sér er lokið.

En eins og brasilíska landsliðið er ekki enn laust allra mála á mótinu, þá munu brasilískir skattgreiðendur einnig fá að taka þátt í mótshaldinu um langa hríð. Kostnaðurinn við uppbyggingu vegna mótsins varð gríðarlegur og það í landi þar sem milljónir manna búa við gríðarlega raunverulega fátækt.

Kostnaðurinn varð raunar svo ofboðslegur að vegna hans urðu reiði, mikil mótmæli og jafnvel óeirðir. Og það í landi sem ekki er þekkt fyrir lítinn knattspyrnuáhuga. Hugsanlega hefði heimsmeistaratitill getað slegið umtalsvert á þá reiði, en nú verður því ekki að heilsa.

Menn mættu hafa þetta í huga víðar. Það er ekki bara í Brasilíu sem stjórnlyndir stjórnmálamenn láta undan þrýstihópum og hefja dýrar framkvæmdir. Það er ekki svo sjaldgæft að þrýstihóparnir liggja á stjórnmálamönnunum með þann boðskap að það sé alveg nauðsynlegt að grafa þessi göng, reisa þessa brú eða byggja þessa tónlistarhöll. Allir verði ánægðir þegar þetta hafi verið gert. Og ef þetta verði ekki gert, þá fari allir. Ef ekki koma göng, þá leggst byggðin af. Ef ekki verður reist tónlistarhöll þá kemur unga fólkið ekki heim úr námi.

Þeir stjórnmálamenn sem leggja eyru við slíku ættu að hafa það hugfast að á síðustu árum hefur líklega hvergi orðið meiri reiði vegna opinbers kostnaðar við uppbyggingu knattspyrnumannvirkja en í Brasilíu. Og líklega er knattspyrnuáhuginn óvíða jafn innilega heitur.

Og stjórnmálamenn, sem leggja trúnað á mikilvægi allra þessara mannvirkja sem eiga að lokka unga fólkið heim úr framhaldsnáminu og efla byggð hér og þar, ættu að hafa í huga hinn sígilda mun á því sem sést og því sem sést ekki. Göngin sjást, tónlistarhúsið sést. En það sem ekki sést er það sem ekki varð til, vegna þess að hið opinbera tók peninga frá fólki og fyrirtækjum og notaði þá í göng og hús. Það gæti nú kannski verið að eitthvað af því hefði líka auðgað mannlífið.