Mánudagur 7. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 188. tbl. 18. árg.

Nýjar sveitarstjórnir voru kosnar í vor og eru nýkjörnir fulltrúar nú þegar byrjaðir að gera góða borg og góða bæi betri, eins og lofað var. Í Reykjavík á að byggja þúsundir nýrra íbúða , í Kópavogi á að dreifa spjaldtölvum og víða á að borga tugþúsundir í „frístundastyrki“, svo þeir sem bjóða upp á tómstundastarf geta farið að huga að næstu gjaldskrárhækkunum.

Frambjóðendur flestra flokka lofuðu auknum útgjöldum úr vasa útsvarsgreiðenda. En hvergi var lofað nákvæmum skattalækkunum, þótt einhvers staðar hafi verið einhver almenn orð um lækkandi álögur. Þó er það svo að útsvarslækkun gagnast öllum launamönnum, því allir borga útsvar jafnvel þótt þeir greiði ekki tekjuskatt til ríkisins. Önnur leið til að bæta hag íbúanna hefði verið að lækka fasteignaskattana, en slík aðgerð gagnast íbúðareigendum strax og hjálpar leigjendum að því leyti að húseigandinn þarf lægri leigu af húseign sinni ef árlegur kostnaður hans af eigninni lækkar.

Enginn lofaði lækkun fasteignaskatta, því það var auðvitað ekki til peningur fyrir því. En það er til peningur fyrir spjaldtölvum.

Ein ástæða sem sveitarstjórnarmenn gefa fyrir því að þeir lækka ekki útsvarið er að þá myndu framlög til sveitarfélagsins úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækka. Það þurfi nefnilega að „fullnýta tekjustofnana“ til þess að fá hámarksframlög. Og fyrir sveitarstjórnarmönnum eru útsvarsgreiðendur ekki íbúar heldur tekjustofnar.

Hér þurfa þingmenn að koma sveitarstjórnarmönnum til aðstoðar. Tvennt ættu þeir að gera strax í upphafi haustþings. Þeir ættu að lækka lögbundið hámarksútsvar sveitarfélaga og þannig lækka strax álögur á íbúana. Og svo ættu þeir að afnema það ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga sem segir að framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga skuli miðuð við fullnýtingu „tekjustofna“ þeirra.

Það væri til dæmis jákvætt fyrsta skref að breyta lögum þannig að á næstu fjórum árum myndi lögbundið hámarksútsvar sveitarfélaga lækka um 0,25% á ári og þannig um 1% á fjórum árum. Auðvitað ættu sveitarstjórnarmenn auðveldlega að geta lagað sig að því. Ekki þykir þeim vandamál að laga sig að samfelldum útgjaldaloforðum kosninganna. Lækkun hámarksútsvars um aðeins 1%, úr 14,48% í 13,48%, myndi strax skila sér til hvers launamanns. Hjón, sem eru með samtals 500.000 krónur í mánaðartekjur, myndu fá 60.000 krónum meira í vasann á hverju ári. Það eru 240.000 krónur á hverju kjörtímabili.

En það er auðvitað ekki til peningur „fyrir þessu“. Hann er bara til þegar á að leggja hjólastíga, gefa spjaldtölvur og mála Hofsvallagötu.