Helgarsprokið 6. júlí 2014

Vefþjóðviljinn 187. tbl. 18. árg.

Nýlega var settur á fót vefurinn heilbrigiskerfid.is þar sem fólk getur komið á framfæri tillögum til úrbóta á heilbrigðskerfinu.

Þar var meðal annars stofnaður umræðuþráður með eftirfarandi inngangi:

Ríkisstjórnin skoði einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og lækkun skatta í kjölfarið. Einkavæðing heilbrigðiskerfisins myndi bæta þjónustu og lækka verð með tilkomu samkeppni um viðskiptavini og þeirri auknu hagræðingu sem óhjákvæmilega myndi eiga sér stað. Ríkisstjórnin ætti að skoða hverning mögulegt sé að framkvæma þetta án þess að það bitni á þeim sem nú þegar eru háðir núverandi kerfi, mögulega með niðurþrepun kerfisins á meðan markaðsöflin eru leyst úr læðingi.

Þarna er vikið að grundvallarmáli og spunnust um það talsverðar umræður, meðal annars um einkarekstur heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Singapúr. Þráðurinn var lengi vel efstur á síðunni enda með langflestar athugasemdir og með flest „sammála“ á síðunni.

Þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallaði um vefinn þá var ekkert minnst á þessa fjörugu umræðu en sagt frá öðrum tillögum sem engin umræða er í kringum og fáir hafa skipt sér af.

Meðal annars er lagt til að ríkið niðurgreiði sálfræði- og tannlæknaþjónustu fyrir fullorðna. Magnea Ólafsdóttir talar fyrir því að skilvirkt heildarteymi heilbrigðisstarfsfólks þjónusti hvert heimili í landinu

Fleiri hugmyndir hafa komið fram. Ísleifur Gíslason óskar til dæmis eftir því að Sjúkratryggingar Íslands greiði niður tannlækningar eins og aðrar lækningar. Það að halda tannheilsu utan við heilbrigðiskerfið geti verið lífsspursmál fyrir fólk sem ekki geti greitt fyrir tannlæknaþjónustu.

Þetta er svona lítið dæmi um hvernig fréttastofa Ríkisútvarpsins vinnur. Vafalaust er ekkert skipulagt samsæri þarna á ferðinni hjá fréttastofunni. Þetta bara er svona af því að fréttamennirnir hafa lítinn áhuga á hagsmunum skattgreiðenda enda sjálfir á launum hjá þeim.

Síðan sjálf er svo hönnuð þannig að það er ekki hægt að kjósa upp né niður tillögur þeirra sem að henni standa en þær eru allar í áttina að aukinni félags- og forræðishyggju – banna reykingar, ókeypis þetta og hitt og svo framvegis.