Miðvikudagur 11. júní 2014

Vefþjóðviljinn 162. tbl. 18. árg.

Frasar og froða verða sífellt algengari í stjórnmálaumræðu á Íslandi, og þá ekki eingöngu í málefnasamningi nýjasta vinstrimeirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eitt útjaskað orð er „sérhagsmunir“, sem áróðursmenn nota nú gjarnan sem uppnefni á sjónarmiðum annarra. Það má nefnilega kalla flest markmið „sérhagsmuni“, ef menn vilja.

Skattgreiðendur sem vilja lækkun skatta, það er hægt að segja að þeir berjist fyrir sérhagsmunum. Sá sem kaupir mikið af raftækjum og vill að vörugjöld af þeim verði lækkuð, hann berst fyrir sérhagsmunum. Sá, sem telur sig eða sína munu einhvern tíma þurfa á dýrri læknismeðferð að halda, og berst þess vegna fyrir niðurgreiddi opinberri heilbrigðisþjónustu, það er alveg hægt að segja að hann berjist fyrir sérhagsmunum, þótt aðrir en hann njóti góðs af baráttunni. Sá berst fyrir því að hann fái kaupa erlendar landbúnaðarafurðir í búðum og kampavínsflösku hjá kaupmanninum á horninu, hann berst fyrir sérhagsmunum.

Auðvitað myndu allir þessir menn segja að þeir sjálfir berðust fyrir almannahagsmunum, en andstæðingarnir fyrir sérhagsmunum. Rétt eins og hinn, sem telur almannaheill krefjast þess að innlend matvælaframleiðsla sé varin fyrir þeim útlenda landbúnaði sem erlend ríki styrkja um þúsundir milljarða, telur einmitt að hann sjálfur berjist fyrir almannahag til langs tíma gegn sérhagsmunum kaupmanna og neytendasamtaka.

Í Sjálfstæðisflokknum hefur verið plága undanfarin ár. Þröngur hópur ESB-sinna hefur með taumlausri frekju reynt að troða baráttumáli sínu áfram, með samfelldum hótunum, þrátt fyrir allir viti að yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna vill að Ísland verði áfram frjálst og fullvalda ríki utan Evrópusambandsins. Ítrekað var reynt að koma til móts við þennan fámenna hóp ESB-sinna, en aldrei sló á frekjuna eða dró úr viðtölunum við sömu mennina sem sungu sama sönginn. Aftur og aftur reyndu þessir menn að koma í veg fyrir flokkurinn lýsti afdráttarlaust þeirri stefnu í málinu sem vitað er að yfirgnæfandi meirihluti flokksmanna vill. Ótrúlega oft var látið undan frekjunni, í óskiljanlegri viðleitni til að ná „sátt“ við menn sem sjálfir munu aldrei bjóða upp á neina sátt ef þeir hafa afl til að knýja vilja sinn fram. Það er svo dæmigert þegar þessir menn halda því ítrekað fram, í sínum samfelldu fjölmiðlaviðtölum, að það séu „sérhagsmunir“ sem ráða því að yfirgnæfandi meirihluti sjálfstæðismanna vilji ekki aðstoða þá við að flytja fullveldi landsins í fáum áföngum til Brussel.