Laugardagur 31. maí 2014

Vefþjóðviljinn 151. tbl. 18. árg.

Ríkissjóður niðurgreiðir gistingu fyrir ferðamenn. Er það ein ástæðan fyrir því að borgarbúar eiga erfitt með að eignast húsnæði í miðborginni?
Ríkissjóður niðurgreiðir gistingu fyrir ferðamenn. Er það ein ástæðan fyrir því að borgarbúar eiga erfitt með að eignast húsnæði í miðborginni?

Í Viðskiptablaði vikunnar er sagt frá svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu.

Hótel og gistiheimili hafa samtals fengið ríflega 3,1 milljarð króna í endurgreiðslu frá ríkissjóði á síðustu sjö árum, eða síðan árið 2007. Þetta þýðir að á þessu tímabili hefur ríkið endurgreitt hótelum og gistiheimilum að meðaltali um 450 milljónir króna ári. Í fyrra var þessi upphæð 463 milljónir. Greiðslan er tilkomin vegna mis­munar á innskatti og útskatti hótela og gistiheimila. Greiddur er 7% virð­isaukaskattur af gistingu en 25,5% virðisaukaskattur er á stórum hluta af aðföngum hótela og gistiheimila. Þau fá því mismuninn endurgreiddan frá ríkinu.

Hótelrekstur er auðvitað í samkeppni við aðrar atvinnugreinar um húsnæði, starfsmenn og fjármagn. Ríkisaðstoð brenglar þessa samkeppni og gæti leitt til bólumyndurnar eins og bent er á í leiðara Viðskiptablaðsins.

Hótel og gistiheimili er reyndar einnig í samkeppni við fjölskyldur um húsnæði, ekki síst miðsvæðis í Reykjavík. Hví skyldi ríkissjóður styrkja hótel og þar með ferðamenn í baráttu þeirra við borgarbúa um svefnplássin í borginni?