Vefþjóðviljinn 150. tbl. 18. árg.
Á morgun verður kosið. En hvað eiga menn svo kjósa, hvaða atriði ætti kjósandi að hafa í huga þegar hann velur milli framboðslista?
Frjálslynt borgaralegt fólk ætti ekki síst að horfa á hvaða almenn viðhorf frambjóðendur og flokkar þeirra hafa til borgarans og hins opinbera. Er flokkurinn almennt þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi að hugsa fyrir borgarann, eða byggir hann á þeirri meginstefnu að hver maður eigi að fá að ráða sem mestu um eigið líf, og vera þannig að sem mestu leyti frjáls að ráðstöfun eigna sinna?
Eru frambjóðendur og flokkar þeirra almennt þeirrar skoðunar að vandamál, til dæmis húsnæðisskortur, séu best leyst með því að stjórnmálamenn skattleggi og útdeili, eða treysta þeir fremur á frjálst framtak einstaklinga til að leysa málin?
Kjósandinn ætti að spyrja hvaða almennu skoðun frambjóðendur hafa á skattfé. Finnst þeim sjálfsagt að taka sem mest frá borgurunum og deila því síðan út eftir skoðunum stjórnmálamanna og embættismanna? Finnst þeim skattalækkun vera „opinber útgjöld“ og „tekjutap“. Eða finnst þeim eðilegast að borgarinn haldi sjálfur sem mestu af eigum sínum og tekjum, og geti varið því samkvæmt eigin gildismati? Finnst þeim skattheimta vera neyðarbrauð, sem eigi að halda í lágmarki og aðeins nota til allra mikilvægustu útgjalda?
Þetta eru almenn atriði sem kjósendur um allt land geta haft í huga þegar þeir velja á milli frambjóðenda. Að öðru jöfnu ætti að kjósa þá sem líklegastir eru til þess að lækka skatta og auka frjálsræði, en hafna þeim sem halda sköttum í hámarki og halda að sveitarstjórnarmál snúist um að „skipuleggja“ hvernig annað fólk hagar daglegu lífi sínu.
Því heitari sem frambjóðendur eða flokkar eru í „skipulagsmálum“, því varkárari ættu borgararnir að vera. Áhuga forræðishyggjumanna á því að skipuleggja lífshætti annarra lýkur aldrei. Vertu með hjálm. Hjólaðu. Farðu á kaffihús. Ekki nota plastpoka. Ekki fá þér vindil. Vertu í rauðum buxum eins og við, sem erum allir alveg nákvæmlega eins öðruvísi. Fáðu þér bláa tunnu og hafðu hana innan fimmtán metra frá gangstéttinni. Styddu kynjaða fjárhagsáætlun.