Vefþjóðviljinn 152. tbl. 18. árg.
Kosningar kalla á Andríkispunkta.
• Meginniðurstaða borgarstjórnarkosninganna í gær er að sjálfsögðu sú að meirihlutinn féll. Eftir fjögurra ára stjórn Jóns Gnarrs, Dags Eggertssonar og félaga, er þetta niðurstaðan, þegar borgarbúar fengu loks að segja álit sitt í kjörklefanum.
• Menn spyrja sig hvers vegna kjörsóknin í Reykjavík hafi minnkað svo verulega á skömmum tíma. Á sama tíma velta menn fyrir sér fylgishruni Sjálfstæðisflokksins í borginni. Ætli ekki geti nú verið samhengi þar á milli? Ætli fjölmargir hefðbundnir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki setið heima að þessu sinni, og margir aðrir látið sér nægja að fara á kjörstað en sleppt því að hvetja vini og félaga til að kjósa. Það hefur mikil áhrif þegar forysta og kjörnir fulltrúar stjórnmálaflokks reyna í mörg ár að forðast stjórnmálaátök.
• Gengi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var að sjálfsögðu hörmulegt, þótt það hafi orðið aðeins betra en skoðanakannanir síðustu tveggja vikna bentu til. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur hvorki barist né varið sig undanfarin ár, og slíkt gengur ekki hjá stjórnmálaflokki sem alltaf mun sæta árásum vinstrimanna.
• Stjórnmálaskýrendur á vinstrivængnum hafa undanfarnar vikur talað um að Dagur Eggertsson njóti persónufylgis. En hvað vita menn um það? Þegar spurt hvar í skoðanakönnunum hvern af oddvitum framboðanna menn vildu helst sem næsta borgarstjóra, þá naut Dagur áberandi mests fylgis af þeim sem þá voru nefnd. En var spurt um aðra möguleika? Sögðu kannanirnar eitthvað um hvort borgarbúar vildu „einhvern annan?“ Eða hvort borgarbúar vildu kannski auglýsa starfið? Undir forystu Dags fékk Samfylkingin 19% atkvæða fyrir fjórum árum. Dagur var í ár óopinbert borgarstjóraefni Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, en þeir náðu ekki meirihluta.
• Dagur naut í könnunum meiri stuðnings en oddvitar hinna framboðanna. En það er samanburðurinn sem var gerður. Undir forystu Dags misstu Samfylkingin og Björt framtíð/Besti flokkurinn hins vegar meirihluta sinn. Meirihluti kjósenda studdi meirihlutann ekki lengur. Hann fór úr níu mönnum í sjö.
• Fyrir rúmu ári lét Jóhanna Sigurðardóttir af formannsembætti Samfylkingarinnar. Engum datt í hug að þáverandi varaformaður, Dagur Eggertsson, kæmi til greina sem eftirmaður hennar. Hugmyndin um „mikið persónufylgi“ hans var ekki fædd þá.
• Skoðanakannanir um fylgi flokkanna reyndust margar fjarri niðurstöðum kosninganna. Ætli það gæti verið að sömu kannanir um fylgi við einstaka oddvita hafi verið jafn nákvæmar?
• Ekki er vafi á því að ofstækisfull viðbrögð við ruglingslegum en að því er virðist fráleitum skoðunum efstu manna Framsóknarflokksins á byggingu mosku, höfðu talsverð áhrif á kosningaúrslitin. Í stað þess að ræða málið af yfirvegun og með rökum, gengu margir af göflunum og bitu á agnið. Um leið var því fólki, sem deilir áhyggjum framsóknarmannanna af málaflokknum, sagt að skoðanir þess verðskulduðu ekki rökræður heldur.
• Það er hægt að afgreiða skoðanir örlítils hóps með viðbrögðum af þessu tagi. En þegar ljóst er að töluverður fjöldi fólks deilir skoðuninni, hvort sem hún er rétt, röng eða hugsanlega sambland af því tvennu, þá þýðir ekki að bregðast svona við. Mjög margir taka slíkum viðbrögðum einfaldlega sem staðfestingu þess að rök séu bágborin.
• Síðustu dagana fyrir kosningar birti Framsóknarflokkurinn áberandi, markvissar og sláandi auglýsingar gegn nokkrum skipulagstillögum vinstrimanna. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokknum ekki tekist að beita sér gegn skipulagsslysum og meinlokum vinstrimanna af neinum þrótti. Þetta skipti auðvitað máli.
• Menn ættu að ímynda sér að kosningar séu rafrænar, eins og margir vilja. Skoðanakannanir sýni aftur og aftur afgerandi niðurstöðu, svo sem að Samfylkingin í Reykjavík fái tæplega 40% fylgi og meirihlutinn í Reykjavík fái níu menn kjörna. Á sama tíma segi kannanir að Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi fái 65% fylgi, svo dæmi séu tekin. Svo sé kosið og um leið og kjörstöðum hefur verið lokað kemur einhver tölvumaður og segir að niðurstaðan sé sú að Samfylkingin hafi fengið 30% og meirihlutinn hafi fallið með aðeins sjö menn af fimmtán. Á Seltjarnarnesi hafi Sjálfstæðisflokkurinn svo fengið 51% en ekki 65% eins og kannanir hafi sagt. Kosið var rafrænt, svo enginn getur skoðað kjörseðlana. Tölvumennirnir segja bara að þetta sé svona.
• Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg stýrði sveitarfélaginu á síðasta kjörtímabili. Undir forystu Eyþórs Arnalds lækkaði hann fasteignaskatta um fimmtung. Flokkurinn hélt hreinum meirihluta sínum í kosningunum. Vinstrigrænir þurrkuðust út.
• Sóley Tómasdóttir hefur strax lýst yfir opinberlega að hún muni ekki starfa með Framsóknarflokknum. Hún hefur auðvitað ekki viljað hafa samningsstöðu í komandi viðræðum við hina vinstriflokkana. Nú þegar þeir vita að hún getur ekkert annað snúið sér, þurfa þeir ekki að bjóða vinstrigrænum neitt sem máli skiptir. Í sama skyni munu þeir vafalaust taka „píratann“ með sér. Með tvo eintrjáningsflokka, þar sem einn hefði nægt, geta menn í raun farið sínu fram.
• Þetta er hárrétt hjá vefnum Distractify.com. Vestmannaeyjar eru einn af fallegustu bæjum í veröldinni.