Þriðjudagur 27. maí 2014

Vefþjóðviljinn 147. tbl. 18. árg.

Borgarfulltrúar og önnur skipulagströll vilja stela hjólunum.
Borgarfulltrúar og önnur skipulagströll vilja stela hjólunum.

Með hnattrænni hlýnun ásamt miklum framförum í hjólabúnaði, auknum útivistaráhuga, sveigjanlegri vinnutíma og minni líkamlegri erfiðsvinnu hafa sífellt fleiri Íslendingar nýtt færið til hjólreiða sér til mikillar ánægju.

En þá hafa tilgerðarlegir borgarfulltrúar og fleiri stjórnlyndir pólitíkusar ákveðið að spilla ánægjunni með því að gera reiðhjólið að lógói fyrir pólitíska hugmyndafræði um hvernig fólk á að haga lífi sínu. Í stuttu máli má segja að þessi stefna snúist um að gera öll mál að skipulagsmálum, allt frá því hvernig þú ferð í vinnuna og hvað og hvar þú kaupir í matinn. Öll mál eru skipulagsmál. Öll völd til skipulagsráðanna.

Eins og gengur með stjórnmálamennina sem vilja segja öðrum fyrir verkum eru þeir oft svo uppteknir af því að leiðbeina almúganum að þeir gleyma sjálfum sér. Þannig þurfti að gera sérstaka leit að hjólreiðamanni á landsfundi vinstri grænna, forseti borgarstjórnar hélt bíllausa daginn hátíðlegan með því að láta aka sér um á embættisbifreið borgarinnar og sá borgarfulltrúi sem mest hefur masað um hjólreiðar mætti einn vetur á Boeing á borgarstjórnarfundi.

Nú eru auðvitað til mjög miklir áhugamenn um alls kyns farartæki og ekkert að því að hver hafi sína frímerkjasöfnun og stofni jafnvel félagsskap um málið.

Þannig er til að mynda til „Félag íslenskra bifreiðaeigenda“ en það nafn töldu bílaáhugamenn frekar við hæfi en til dæmis „Félag þeirra sem hata hjólreiðar og labbitúra“ eða „Félag um hjólalausan lífsstíl“.

Fólkið sem segist hafa áhuga á hjólreiðum, gönguferðum og niðurgreiddum strætóferðum stofnaði hins vegar ekki „Félag íslenskra hjólreiðamanna og strætófarþega“ heldur „Samtök um bíllausan lífsstíl“. Samtökin stefna ekki að jákvæðu og uppbyggilegu starfi heldur snýst félagið um óþol gagnvart öðru fólki. 

Og þess vegna vill það fá skipulagsvaldið og að öll mál séu skipulagsmál.