Mánudagur 26. maí 2014

Vefþjóðviljinn 146. tbl. 18. árg.

Fer kosningabaráttan fram án þess að útsvarið sé rætt?
Fer kosningabaráttan fram án þess að útsvarið sé rætt?

Sveitarstjórnarkosningar standa nú fyrir dyrum og frambjóðendur og fréttamenn ræða nú alls kyns aukaatriði.Frambjóðendur elda mat og fara í líkamsrækt fyrir framan myndavélarnar, en ekkert er rætt um hvort einhverjum þeirra detti í hug að draga úr skattlagningu launamanna í sveitarfélaginu.

En hversu mikið ætli það sé sem borgar- og bæjarfulltrúar skattleggja íbúana um á hverju ári? Flest sveitarfélög innheimta hæsta mögulega útsvar, 14,48%, svo hver og einn launamaður getur auðveldlega reiknað hvað það er sem tekið er af honum um hver mánaðamót og hvorki frambjóðendur né fréttamenn telja ástæðu til að ræða hvort megi minnka.

  • Heimili þar sem samlagðar mánaðartekjur fullorðinna eru 400.000 krónur greiðir 695.040 krónur á ári í útsvar. Það eru 2.780.160 krónur á kjörtímabili.
  • Heimili þar sem samanlagðar mánaðartekjur fullorðinna eru 700.000 krónur greiðir 1.216.320 krónur á ári í útsvar. Það eru 4.865.280 krónur á kjörtímabili.
  • Heimili þar sem samanlagðar mánaðartekjur fullorðinna eru 1.000.000 krónur greiðir 1.737.600 krónur á ári í útsvar. Það eru 6.950.400 krónur á kjörtímabili.

Þetta er langhæsta gjaldskrá sveitarfélaganna. Hvernig væri að lækka hana?