Vefþjóðviljinn 145. tbl. 18. árg.
Samtök um ísskápslausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera ísskápslausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er.
Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr mengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi.
Í hópnum er fólk sem bæði lifir ísskápslausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri.
Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér ísskápslausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum.
Hópurinn mun vekja athygli á eftirfarandi:
* Auknum rétti þeirra sem vilja hafa val um að geyma matinn sinn með öðrum hætti en í dýrum og mengandi ísskáp.
* Ísskápar þarfnast mikillar orku sem framleiða þarf með virkjunum á óspilltum víðernum og tilheyrandi háspennulínum eða bruna jarðefnaeldsneytis og mengun.
* Frá ísskápum berst jafnan hljóð sem rýrir hljóðvist í borgarsamfélaginu.
* Ísskápar eru innfluttir. Náttúruleg kæling sparar gjaldeyri.
* Flestir ísskápar eru framleiddir af alþjóðlegum stórfyrirtækjum en fæstir í heimabyggð. Innflutningur (nema kannski á ostum) er í andstöðu við sjálfbærnimarkmið staðardagskrár 21 og grænfánans.
* Það sem fólk geymir í ísskápum er helsta ástæða offitufaraldurs á Vesturlöndum.
* Ísskápar taka gríðarlegt pláss í borginni. Það eru yfir 50 þúsund ísskápar í Reykjavík. Þeir taka yfir 20 þúsund fermetra. Helgunarsvæði þeirra (þegar dyrnar eru opnar) er svo annað eins. Mætti ekki gera eitthvað skemmtilegra við þessa 40 þúsund fermetra? Á þeim gætu til dæmis rúmast þúsund litlar opinberar leiguíbúðir án ísskápa.
* Hver vill ekki gera eitthvað skemmtilegra við peningana en að vera með ísskáp á raðgreiðslum?
* Munu ekki komandi kynslóðir hlæja að því að við höfum haft matinn okkar í yfirfrakka úr stáli?
* Og svo er það svo góð hreyfing að fara með matinn út á svalir eða hengja hann í poka (margnota ) út um glugga.
* Óviss kæling matvæla á svölum hvetur fólk einnig til tíðari ferða í verslanir í nærsamfélaginu, styrkir innviði hverfa og eykur hreyfingu.