Laugardagur 24. maí 2014

Vefþjóðviljinn 144. tbl. 18. árg.

Samfylkingarflokkarnir í borgarstjórn felldu á dögunum eigin tillögur um þéttingu byggðar í „hverfaskipulagi“. Tillögugerðin hafði þá kostað borgarbúa stórfé.

Lesandi sem hefur gaman af því að föndra án þess að fá greiddar tugi milljóna króna frá skattgreiðendum sendi Vefþjóðviljanum þessa skemmtilegu tillögu að þéttingu byggðar á Melhaganum.

Þéttingartillaga sem kostar skattgreiðendur ekki neitt. Með því að þétta Melhagann með blokkarlengju má tryggja íbúum bíllausan og sjálfbæran lífsstíl.
Þéttingartillaga sem kostar skattgreiðendur ekki neitt. Með því að þétta Melhagann með blokkarlengju má tryggja íbúum bíllausan og sjálfbæran lífsstíl.

Samkvæmt tillögunni mætti byggja fjölbýlishús (opinberar leiguíbúðir) á götunni til að tryggja íbúum bíllausan lífsstíl. Í samræmi við þéttingarstefnuna mætti blokkin gjarnan vera í allt öðrum stíl og mun hærri en húsin í kring eins og vaninn er í þéttingu byggðar.

Þegar gatan væri horfin undir blokkir myndi losna pláss fyrir matjurtagarða (sjálfbært) þar sem áður voru bílastæði við hús.

Þetta hefði sömuleiðis þann kost að þegar sorptrukkarnir koma í halarófu (endurvinnsla, umhverfisvænt) að tæma hver úr sinni tunnu – gráu, bláu, grænu – myndu tekjur borgarinnar snaraukast því allar tunnur væru meira en 15 metra frá næstu götu.