Föstudagur 23. maí 2014

Vefþjóðviljinn 143. tbl. 18. árg.

Ríkisstjórnin á eins árs afmæli í dag. Það er því meira en fjórðungur kjörtímabilsins liðinn, því vitaskuld tók mánuð að mynda stjórnina. Þeim fjölmörgu, sem bundu vonir við að nýja ríkisstjórnin myndi snúa með afgerandi hætti við vinstrablaðinu sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms skildi eftir sig, finnst auðvitað mjög ónotalegt að hugsa til þess að fyrsti fjórðungurinn sé liðinn, og næstum engu hafi verið komið í verk.

Vitaskuld ber hæst að Ísland er enn umsóknarríki í Evrópusambandið og á alþjóðavettvangi er því álitið að landið hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið. Einungis á íslenskum stjórnmálabloggsíðum og í þáttum hjá Ríkisútvarpinu er til sú trú til að ríki sæki um aðild til þess að „sjá samninginn“. Þrettán mánuðum eftir að ESB-flokkarnir fengu rúmlega 20% atkvæða í þingkosningum hefur ríkisstjórninni ekki tekist að afturkalla inngöngubeiðni landsins í ESB, og hlýtur það að vera met í árangursleysi.

Hafi einhver áhyggjur af því að fjórðungur kjörtímabilsins sé liðinn og ekkert hafi gerst, þá aukast áhyggjurnar þegar menn sjá að ráðherrarnir eru hæstánægðir með árangur sinn. En á hvaða sviði hafa þeir reynt að snúa til baka með nokkuð sem vinstristjórnin gerði? Menn hafa stigið hænuskref til að minnka árásir vinstrimanna á sjávarútveginn, en hvað annað?

Fjárlög voru afgreidd án halla. Það var breyting í rétta átt frá vinstristjórninni. En mjög langt frá því sem þarf að gera í þeim málum. Þar þarf að taka rækilega til hendinni. Sama má segja um almennar skattalækkanir. Þær voru örlitlar og þar þarf að ganga mun röskar til verks strax í haust. Lækkun tryggingagjalds var sáralítil. Bankaskatturinn nýi er svo mál sem allir þekkja.

Á sumum sviðum hefur ríkisstjórnin stigið hænuskref í rétta átt. Á flestum sviðum hefur hún ekkert gert. Skuldalækkunarmálin afgreiddi hún í samræmi við kosningastefnu flokkanna, en stefnan var því miður ekki góð.

Á ársafmæli ríkisstjórnarinnar yfirskyggir þó eitt atriði flest önnur. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa nú í heilt ár setið í ríkisstjórn umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Því umsóknarríki stýrir ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bjarna Benediktssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Illuga Gunnarssonar og félaga. Þessir menn, sem allir vilja vafalaust vel, hafa í heilt ár setið í ríkisstjórn umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Eitt ár hefur ekki nægt þeim til að breyta því. Hversu lengi ætla þeir að láta mál standa þannig?