Þriðjudagur 6. maí 2014

Vefþjóðviljinn 126. tbl. 18. árg.

Framsóknarflokkurinn studdi aðildarumsókn að ESB í þingkosningum vorið 2009. Nú hefur honum svo tekist að tefja það um heilt ár að aðildarviðræðunum sé slitið.
Framsóknarflokkurinn studdi aðildarumsókn að ESB í þingkosningum vorið 2009. Nú hefur honum svo tekist að tefja það um heilt ár að aðildarviðræðunum sé slitið.

Það kom ýmsum á óvart fyrir réttu ári að ný ríkisstjórn skyldi þurfa úttek á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það var orðað svo í stefnuyfirlýsingu hennar 22. maí 2013:

Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.

Ekki var það síður undarlegt að stjórnin skyldi boða hlé á viðræðunum þar sem fyrri ríkisstjórn hafði þegar gert hlé á þeim.

Þótt Framsóknarflokkurinn hafi haft það á stefnuskrá sinni vorið 2009 að sækja um aðild að ESB var stefna beggja stjórnarflokkanna fyrir þingkosningar 2013 að slíta viðræðunum og hagsmunum Íslands væri betur borgið utan sambandsins en innan þess. 

Auðvitað átti því að slíta viðræðunum strax á sumarþinginu í fyrra.

Ekki minnkaði undrun manna þegar utanríkisráðherra dró það svo fram í lok október að fá menn til skýrsluskrifanna, en þá samdi hann við hagfræðistofnun Háskóla Íslands um þau ónauðsynlegu útgjöld skattgreiðenda.

Svo kom skýrslan loks í febrúar. Og aðeins nokkrum dögum síðar lagði utanríkisráðherra fram langþráða tillögu til þingsályktunar um að slíta viðræðunum. Sem von er spurðu menn til hvers skýrslan hefði verið skrifuð og eftir henni beðið ef vart gæfist ráðrúm til að meta efni hennar. ESB-sinnar tóku þessu formsatrið fegins hendi og hófu áróður um að ríkisstjórnin vildi helst ekki ræða efni skýrslunnar.

Nú sjötíu dögum eftir útkomu skýrslunnar hefur tillagan um viðræðuslitin hins vegar ekki verið afgreidd í þinginu og mönnum hefur því gefist gott ráðrúm til að kynna sér efni bæði skýrslunnar og tillögunnar og ræða fram og til baka.

Framsóknarflokkurinn hlýtur að vera búinn að tæma alla möguleika á að tefja málið og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða tillöguna.