Vefþjóðviljinn 125. tbl. 18. árg.
Á dögunum var samið um 2,8% almenna launahækkun á almennum vinnumarkaði. Það þykir mörgum auðvitað ekki mikið, en þó hefur þorra manna fundist þetta nægileg hækkun til að samningarnir voru samþykktir. Ef þessi 2,8% hækkun skilar launamanni 10 þúsund króna launahækkun klípa ríki og sveitarfélög 37 til 47% af henni.
Það er hægt að gera ýmislegt til að bæta kjör launafólks. Þar á meðal eru skattalækkanir. Þar myndi útsvarslækkun sveitarfélaga skila sér til allra launamanna, því allir borga þeir útsvar en persónuafsláttur dregst aðeins frá tekjuskatti til ríkisins.
Ef sveitarfélag myndi lækka útsvar um 1% þá myndi það strax skila sér í bættum kjörum launafólks í sveitarfélaginu. Og ekki aðeins til þeirra launahæstu, heldur til allra launþega.
Ef sveitarfélag lækkar útsvar um 1% myndu hjón, með samanlagðar mánaðartekjur 500.000 krónur, greiða 5.000 krónum lægri skatt á mánuði. Það eru 60.000 krónur inn í heimilisreksturinn á ári. Hjón með 750.000 króna samanlagðar tekjur myndu fá að halda eftir 90.000 krónum á ári, frá því sem tekið er af þeim núna.
Hvers vegna berjast svo fáir frambjóðandur fyrir útsvarslækkun? Hvers vegna virðast þeir flestir ætla að fólk vilji frekar „aukna þjónustu“ en lækkun gjalda til sveitarfélagsins?
Eru þeir kannski svona hræddir við yfirvofandi fréttamenn Ríkisútvarpsins sem spyrja hvort skattalækkanir gagnist ekki fyrst og fremst þeim sem hafa úr miklu að spila? Staðreyndin er sú að skattalækkanir gagnast öllum, því allir borga skatta.
Eða eru frambjóðendur búnir að sannfæra sig um að fólk hafi ekki áhuga á skattalækkunum? Að fólki finnist það ekki borga of mikið til hins opinbera? Að hjónin með samanlagðar tekjur um 500.000 krónur á mánuði hafi ekkert að gera við 60.000 krónur á ári, 240.000 krónur á kjörtímabili, en vilji endilega fá hjólastíg einhvers staðar?