Vefþjóðviljinn 127. tbl. 18. árg.
Undanfarið hefur Vefþjóðviljinn af og til gert útsvar til sveitarfélaga að umtalsefni, og ekki að ástæðulausu. Sveitarstjórnarmenn eru svo skattaglaðir að langflest sveitarfélög landsins heimta nú hæsta mögulega útsvar af borgurunum. Varla nokkur sveitarstjórnarmaður virðist vera á þeirri skoðun að peningar íbúanna séu almennt betur komnir hjá íbúnum sjálfum en í borgarsjóði eða bæjarsjóði.
Og nú þegar sveitarstjórnarkosningar nálgast er þetta umræðuefni brýnna en oft áður.
Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fjallar um þetta mál í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á þá áhugaverðu staðreynd að landsmenn greiða meira í útsvar til sveitarfélags en tekjuskatt til ríkisins. Árið 2012 námu útsvarstekjur sveitarfélaganna um 134 milljörðum króna en tekjuskattur til ríkisins nam 101 milljarði króna.
Auðvitað eru báðar fjárhæðirnar gríðarlega háar. En hversu algengt ætli það sé að launþegar, sem skoða launaseðil sinn, átti sig á því í fljótu bragði hversu mikið fé sveitarfélagið heimtar af þeim? Hversu margir þeirra, sem greiða tekjuskatt, vita að útsvarstekjur sveitarfélaga eru hærri en tekjuskatturinn sem ríkið innheimtir?
Með grein sinni birtir Óli Björn töflu sem sýnir útsvarshlutfall í hverju einasta sveitarfélagi landsins, frá lágmarkinu sem er 12,44% og upp í hámarkið 14,52%. Hann reiknar út að skattgreiðendur í háskattasveitarfélögunum, til dæmis Reykjavík og Hafnarfirði, eru einni viku lengur að vinna fyrir útsvarinu á hverju ári, heldur en þeir sem búa í þeim sveitarfélögum sem minnst innheimta.
Það skiptir verulegu máli fyrir launamann hversu mikið sveitarfélögin heimta af íbúum sínum. En sjaldan heyrast verkalýðsleiðtogar krefjast myndarlegrar útsvarslækkunar. Það eru fáir menn með skilti sem krefjast skattalækkana fyrsta maí.
Það er hins vegar þýðingarmikið að kjósendur geri sitt besta til að snúa sveitarfélögum af háskattabrautinni. Það gera þeir með því að hvetja stjórnmálamenn til skattalækkana, með því að kjósa þá sem líklegastir eru til að lækka skatta og ekki síst með því að styðja í prófkjöri þá sem líklegir eru til þess, en styðja ekki hina sem tala um allt nema skattalækkanir.