Fimmtudagur 24. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 114. tbl. 18. árg.

Jórunn þáði sæti á framboðslista hægri flokks en leggst svo á árarnar með vinstri flokkunum nokkrum dögum fyrir kosningar.
Jórunn þáði sæti á framboðslista hægri flokks en leggst svo á árarnar með vinstri flokkunum nokkrum dögum fyrir kosningar.

Jórunni Frímannsdóttur hefur um árabil verið treyst fyrir ýmsum störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík, meðal annars sem varaborgarfulltrúi og borgarfulltrúi. Sjálfsagt væri Jórunn enn borgarfulltrúi ef flokkurinn hefði ekki átt undir högg að sækja hin síðustu ár.

Jórunn tók ekki þátt í prófkjöri flokksins síðastliðið haust en í janúar var henni boðið svonefnt heiðurssæti á lista flokksins vegna borgarstjórnarkosninga í lok maí. Sem hún þáði.

Nú gerðust þau tíðindi í febrúar að utanríkisráðherra lagði fram tillögu um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Er tillaga utanríkisráðherrans í góðu samræmi við stefnu landsfundar Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem bauð Jórunni heiðurssæti í janúar og hún þáði.

Nú tveimur mánuðum eftir að tillagan um að slíta ESB viðræðunum kom fram og án þess að hún hafi verið afgreidd á Alþingi segir Jórunn sig úr Sjálfstæðisflokknum og óskar eftir því að vera tekin af framboðslistanum sem bjóða á fram eftir nokkra daga.

Jórunn ætlar þó ekki í framboð fyrir annan flokk í borgarstjórnarkosningunum í lok maí.

Úrsögnin lítur því út fyrir að vera tímasett í þeim eina tilgangi að skaða flokkinn sem treyst hefur Jórunni til ýmissa verka. Takist Jórunni það er það ekkert nema vatn á myllu vinstriflokkanna því ekki er öðrum hægriflokki til að dreifa.

Það er nokkur munur á því að segja sig úr flokki, sem auðvitað geta verið málefnalegar ástæður fyrir, og hinu að leggjast á árarnar með andstæðingum hans.