Miðvikudagur 23. apríl 2014

Vefþjóðviljinn 113. tbl. 18. árg.

Á morgun munu framsóknarmenn væntanlega kynna Guðna Ágústsson sem efsta mann á lista sínum í Reykjavík. Forsvarsmenn vinstriflokkanna eru greinilega áhyggjufullir vegna þess, enda töldu þeir kosningarnar frágengnar og eru óvanir stjórnarandstöðu. 

En á morgun kemur Guðni væntanlega og ef hann færir framsóknarmönnum byr í seglinn munu álitsgjafar og fréttamenn haga sér samkvæmt því. Þá hefjast „upprifjanir“ á gömlum árásarefnum á framsóknarmenn og þar sem Guðni var sjaldnast nálægur gæti verið að myndum af Halldóri Ásgrímssyni fari bráðum að fjölga í fréttatímum.

Þessi viðbrögð vinstrimanna og fjölmiðlamanna eru fyrirsjáanleg. En viðtal við Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur, sem framsóknarmenn ætluðu að hafa í öðru sæti framboðslista síns á eftir Óskari Bergssyni, var kannski ekki eins fyrirsjáanlegt. Hún segist þar ekki styðja Guðna í efsta sætið og gefur skýringu á því: „Ég get ekki stutt mann sem ég þekki ekki. Ég get ekki stutt einhvern sem ekki hefur talað við mig og ekki boðið mér það að styðja sig. Ég geri það ekki úti í bláinn, ég hef engar forsendur til þess“

Guðrún Bryndís Karlsdóttir getur ekki stutt Guðna af því að hún þekkir hann ekki. En hvernig er með almenna kjósendur í Reykjavík, þekkja þeir Guðrúnu? Hefur hún talað við þá?

Ef notaður er þessi þekkingarmælikvarði, hvort ætli fleiri kjósendur telji sig þekkja Guðna Ágústsson en Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur? Hversu vel þarf að þekkja frambjóðanda til að gera upp við sig hvort menn styðji hann í borgarstjórn eða ekki?

Síðar í sama viðtali virðist samt á Guðrúnu sem hún þekki til Guðna. Hún segir hann tengdan „stjórnmálum af gamla skólanum“, en það eru víst stjórnmál fyrir þann tíma sem menn héldu ógildar stjórnlagaþingskosningar, sóttu um aðild að Evrópusambandinu án þess að meirihluti þings eða þjóðar vildi ganga í Evrópusambandið og gerðu Icesave-samning á hverju ári.

Svo segja fréttamenn að Guðrún sé í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Það er nú ekki eins víst og fréttamenn halda. Framsóknarflokkurinn hefur engum lista skilað inn. Hið rétta er að framsóknarmenn kynntu á sínum tíma lista sem þeir ætluðu að bjóða fram. Auðvitað geta þeir breytt þeim lista eins og þeir vilja, allt þar til að framboðslistanum er skilað til kjörstjórnar. Fram að því er enginn á framboðslistanum og enginn færist þar sjálfkrafa til, við það að einhver annar hætti við að bjóða sig fram. Við núverandi aðstæður er enginn væntanlegur frambjóðandi í neinu „staðgengilssæti“, eins og einhverjir virðast trúa.