Vefþjóðviljinn 82. tbl. 18. árg.
Hlutdrægni og slagsíða Ríkisútvarpsins er oft rædd og sjaldan að ástæðulausu. En slagsíðan er ekki bundin við fréttastofuna heldur ótrúlega víða um dagskrána. Auðvitað er ekki slagsíða á öllum þáttum, en hún er víða og þar sem hún er þá er hún á aðra hliðina. Til vinstri. Til stjórnlyndis. Til pólitísks rétttrúnaðar. Til aukins hlutverks hins opinbera. Til aukinna „félagslegra úrræða“.
Hafi álitsgjafar vinstrimanna sýnt einhverju máli sérstakan áhuga, þá má næstum ganga út frá því sem vísu að það beri fljótlega á góma í spjallþáttum Ríkisútvarpsins, með þeim inngangi að málið hafi verið mjög til umræðu og svo er rætt við einhvern skoðanabróður um grein sem hann skrifaði einhvers staðar „og vakið hefur mikla athygli“.
Svo eru önnur mál saklausari. Nýjasta viðtalið við Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing var af þeim toga.
Einn þáttur Ríkisútvarpsins heitir Sjónmál og er á dagskrá fimm morgna í viku. Ríkisútvarpið kynnir hann sem þátt um „samfélagsmál á breiðum grunni“.
Á föstudaginn ræddi Lísa Pálsdóttir þar um boðsferðir ráðamanna og fékk til viðtals hinn óþreytandi stjórnsýslufræðing, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur.
Því miður var Sigurbjörg ekki fengin til að ræða spurningarnar sem Hannes H. Gissurarson hefur beint til hennar opinberlega, í tilefni af ýmsum fullyrðingum Sigurbjargar og Roberts Wades á opinberum vettvangi, en Ríkisútvarpið hefur lítinn áhuga á að fá svör við þeim, þrátt fyrir almennan áhuga Efstaleitismanna á því sem frá Sigurbjörgu kemur.
Í Sjónmáls-viðtalinu var rætt um nýlega ferð forsætisráðherra til Kanada, en þangað fór hann sem gestur í fyrstu áætlunarferð Icelandair á nýrri flugleið þangað. Ráðherrann hitti ýmsa ráðamenn í fylkinu, ekki alríkinu, og forsvarsmenn í viðskiptalífinu þar.
Stjórnsýslufræðingurinn hafði meðal annars það um þessa heimsókn að segja, að forsætisráðherrann væri leiðtogi þjóðríkis, en þarna hefði hann einungis heimsótt ráðamenn og atvinnulífsmenn í einu tilteknu fylki í Kanada og það væri „annað stjórnsýslustig“. Eðlilegra hefði verið að dipómatar, sendiherrar og ræðismenn, hefðu tekið þetta erindi að sér.
Næst nefndi þáttastjórnandinn að tímasetning þessa ferðalags væri óheppileg, því nú væri verið að mótmæla á Austurvelli. Hugsanlega hefði ráðherrann átt að hætta við ferðalagið vegna „ástandsins hér heima“. Stjórnsýslufræðingurinn taldi það þó varla nauðsynlegt, ef ferðin hefði verið löngu ákveðin, og svo hefði hún nú verið stutt. En meira máli skipti þetta með stjórnsýslustigið, við gætum ekki hegðað okkur eins og ekkert hefði gerst, hér hefði orðið hrun og menn yrðu að bæta ráð sitt og byggja upp traust. Taldi stjórnsýslufræðingurinn líklegt að þetta hefði verið rætt innan ráðuneytisins og haft „eitthvað ákveðið samráð við samræmingarnefnd um siðferðilegar reglur og siðferðileg viðmið“.
Stjórnsýslufræðingurinn bætti næst við að erlendis yrði strax „ frétt, álitamál og umræða“ ef „forsætisráðherra er til dæmis að hitta einn og sér einhverja aðila úr viðskiptalífinu“.
Þetta voru þannig hinar merkilegustu umræður og vissulega ekki þær vitlausustu sem heyrst hafa í Ríkisútvarpinu.
Á föstudögum er einnig á dagskrá Ríkisútvarpsins þátturinn Orð um bækur. Þangað eru fengnir menn til að flytja pistla yfir hlustendum. Í mars hefur Dagur Hjartarson setið við hljóðnemann og hann er kynntur þannig að hann sé menntaður í bókmenntafræðum, íslensku og ritlist. Á dögunum fjallaði hann um Útlendingastofnun og sagði meðal annars að starfsmenn hennar væru „fól á fullum launum við að reikna líf annarra út frá lögum sem gera ekki grein fyrir mannsálinni.“
Menn ættu að velta fyrir sér viðbrögðunum sem hefðu orðið ef Ríkisútvarpið hefði í stað þessa erindis útvarpað pistli einhvers sem héldi því fram að starfsmenn Útlendingastofnunar væru samviskusamt fólk sem gætti laga og réttar. Einhvers sem væri þeirrar skoðunar að ekki væri sérstaklega brotið á þeim sem hér leituðu hælis. Sem teldi jafnvel að landið væri nú ekki lokaðara en svo að hvern vinnudag ársins fengju fjórir til fimm útlendingar íslenskan ríkisborgararétt.
Og hvað ef einhver flytti nú pistil og teldi að herða ætti reglur um aðgang hælisleitenda að landinu?
Ætli þá hefðu verið rekin upp ramakvein? Ætli þá hefði verði spurt hver hefði hleypt þessum manni að hljóðnema í „Ríkisútvarpinu okkar“?
Ætli þá hefði verið sagt að Ríkisútvarp, sem hefur lagaskyldur um að gæta hlutleysis, yrði að gæta fyllsta jafnræðis með sjónarmiðum, ef það gæfi mönnum færi á að flytja pólitíska pistla yfir hlustendum?
Ætli þá hefði verið gerð krafa um að einhver talsmaður gagnstæðra sjónarmiða fengi samsvarandi útsendingartíma til að kynna önnur viðhorf?
Já, líklega hefði þetta allt verið sagt, og með fullum rétti. En þegar einhver flytur skoðanir sem viðteknar eru í Efstaleiti 1, þá sér enginn innanhúss neina ástæðu til slíks. Þá var þetta bara fínn pistil eftir menningarmann.
En auðvitað ættu allir að geta sameinast um, að svo lengi sem ríkið heldur úti fjölmiðli, þá á að gæta raunverulegs jafnræðis milli sjónarmiða sem þar eru kynnt og boðuð. Þeir, sem fagna þegar fluttur er boðskapur sem þeim líkar vel, ættu að spyrja sig hvernig þeim hefði líkað ef þveröfugur boðskapur hefði fengið sama rúm í Ríkisútvarpinu. Alveg óháð skoðunum sínum á útlendingamálum ættu menn að geta sameinast um að Ríkisútvarpið á ekki að flytja einhliða pistla um að starfsmenn útlendingastofnunar séu fól.