Vefþjóðviljinn 81. tbl. 18. árg.
Það er sagt að íslenska krónan komi í veg fyrir atvinnuleysi, því hún sveiflist í takt við efnahagslíf landsins og geri það samkeppnishæfara en ella.
Með öðrum orðum lækki krónan laun og rýri lífskjör þegar kreppir að.
Nú er það hins vegar þannig að fyrirtæki landsins ganga ekki öll í takt. Gengi þeirra er út og suður, jafnvel í svonefndri efnahagslægð vegnar mörgum fyrirtækjum bara ljómandi vel. Hvers vegna eiga starfsmenn fyrirtækja sem gengur vel að taka þátt í einhvers konar hóplaunalækkun í gegnum fallandi gengi krónunnar og verðbólgu? Ein ríkislaunalækkun fyrir alla.
Eru þá ótaldir þeir erfiðleikar sem ótraustur gjaldmiðill veldur fyrirtækjum við áætlanagerð, að ógleymdum höftunum sem fylgir honum.
Mörg ríki með eigin gjaldmiðil hafa svo búið þrálátt atvinnuleysi svo eitthvað vantar upp á að kenningin um að slíkir gjaldmiðlar skapi störfin.