Mánudagur 24. mars 2014

Vefþjóðviljinn 83. tbl. 18. árg.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms eftir kosningarnar 2009 var að láta Ísland óska eftir inngöngu í Evrópusambandið.

Ákvörðun um þetta var kynnt í stjórnarsáttmála, hálfum mánuði eftir að Steingrímur J. Sigfússon hafði ítrekað neitað  fyrir kosningar að slíkt kæmi til greina.

Nú, tæpu ári eftir þingkosningar hefur nýr þingmeirihluti loksins haft sig í að leggja til að inngöngubeiðnin verði afturkölluð. Hefði þó verið eðlilegt að gera það miklu fyrr, enda blasir við að þegar meirihluti alþingis vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið kemur ekki til greina að Ísland sé áfram umsóknarríki í það. Í þeirri stöðu þarf ekki málalengingar, skýrslur eða umsagnir, þó þingmeirihlutinn láti auðvitað undan í því eins og mörgu öðru.

Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur og blaðamaður skrifar í dag grein í Morgunblaðið um ítrekaða undanlátssemi við fámennan hóp Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum og segir að undanfarin ár hafi svo virst sem Sjálfstæðisflokknum sé haldið í gíslingu af fámennum hópi sem geti ekki sætt sig við að skoðanir hans hafi hvorki hlotið brautargengi innan flokksins né verið sérstaklega almennar. Stefán Gunnar segir:

Þessi hópur hefur hins vegar haft sig mikið í frammi og reynt að knýja fram með nokkrum þjósti, svo að ekki séu sterkari orð notuð, að stefna flokksins í Evrópumálum verði önnur en sú sem meirihluti flokksmanna aðhyllist. Síðustu vikurnar hefur því mátt fylgjast með algjörri afbökun ESB-umræðunnar og stöðu málsins innan Sjálfstæðisflokksins. Það liggur við að nánast allir þeir sjálfstæðismenn sem nokkurn tímann hafa horft jákvæðum orðum til aðildar hafi verið dregnir upp á dekk til þess að tjá sig um öll brostnu loforðin, sem þó merkilegt nokk, eiga sér engan stað í samþykktum landsfundar flokksins, sem á, allavega að nafninu til, að marka stefnu flokksins.

Raunar mætti færa að því mjög sannfærandi rök að fylgishrun flokksins í aðdraganda síðustu kosninga hafi einkum stafað af afstöðu forystumanna hans í þriðja snúningnum af Icesave-málinu, en þar var einkum fylgt ráðgjöf sömu manna og sem nú láta mest til sín taka, og farið gegn skýrri stefnu landsfundar. Fylgið fór allavega ekki vegna Evrópumála, svo mikið er víst, því að það lenti nánast allt saman á Framsóknarflokknum, eina flokknum sem hafði harðari Evrópustefnu en Sjálfstæðisflokkurinn.

Um leið og þingsályktunartillaga utanríkisráðherra var lögð fram, tillaga sem samrýmist stefnu beggja stjórnarflokkanna, var farið aftur í sama óheillafarið. Fámennur hópur flokksmanna kemur saman í bakherbergi sem varla rúmar fótboltalið, og samþykkir áskorun á Sjálfstæðisflokkinn, sem í raun gengur út á það að einu sinni enn eigi að fresta því að þingmenn flokksins fari eftir samþykktum landsfundar síns. Gífuryrðin fljúga á alla vegu. Fyrrverandi formaður flokksins talar um stærstu svik Íslandssögunnar og fyrrverandi varaformaður flokksins uppnefnir ríkan meirihluta flokksmanna sem „svartstakka“, því nafni sem öfgasveitir Mussolinis gengust við. Í ljósi þess að „svartstakkarnir“ upphaflegu voru fámennur hópur manna sem beittu hótunum og ofbeldi til þess að fá sínu fram, þykir mér það vera nokkur spurning hvorum hópnum innan flokksins sé betur lýst með þessu ófagra viðurnefni.

Er ekki komið nóg? Meirihluti þjóðarinnar vill ekki inn í Evrópusambandið. Meirihluti þingsins vill ekki inn í Evrópusambandið og stór meirihluti Sjálfstæðisflokksins vill ekki inn í Evrópusambandið.

Hvenær á að taka tillit til þessa fólks?