Vefþjóðviljinn 58. tbl. 18. árg.
Meðal þess sem borgaryfirvöld hafa gert til að þrengja að einkabílnum undanfarin ár er að hækka kanta við götur þannig að tryggt sé að bílar skemmist rækilega við að rekast utan í þá og um leið sé tryggt að ekki sé hægt að tylla bílhjóli upp á götukantinn ef víkja þarf fyrir annarri umferð, til að mynda forgangsakstri lögreglu.
Líklega sjá borgarfulltrúar fyrir sér að ef kantar séu ekki nægilega háir muni einhver freistast til að leggja bíl upp á kantinn en fátt vekur meiri óhug í borgarstjórn en sú tilhugsun að bíl sé lagt nærri áfangastað og ökumaður geti sinnt erindi sínu.
En stríð borgarinnar gegn einkabílnum er ekki án fórna. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var rætt við Arnar Helga Lárusson formann samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra um endurbætur á Hverfisgötunni.
Kantarnir hér á götunni eru til að mynda svo háir að það eru aðeins þrír staðir á allri götunni sem við komumst upp á. Ef ég fer út úr bílnum á einhverju bílastæði með börnin með mér þarf ég að fara eina 300-400 metra á götunni þar til ég kemst upp á gangstéttina. Það virðist vera algjört hugsunarleysi með framkvæmdirnar hérna.
Líklega þarf borgarstjórnin að skýra það betur út fyrir þeim sem eru bundnir við hjólastól eða eru hreyfihamlaðir á annan hátt að þeim sé ætlað að taka strætó, hjóla eða ganga vilji þeir fara um miðborgina.