Miðvikudagur 26. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 57. tbl. 18. árg.

Það er merkilegt hvernig mönnum tekst stundum að horfa framhjá því sem ætti að blasa við.

Dæmi er stefna Sjálfstæðisflokksins í Evrópusambandsmálum. Hún er mjög skýr. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins kvað upp úr um hana fáum vikum fyrir síðustu alþingiskosningar. Landsfundur lýsti því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að aðildarviðræðum við Evrópusambandið skyldi slitið. Á fundinum var lagt til að gert yrði hlé á viðræðunum, en landsfundurinn felldi þá tillögu. Stefna Sjálfstæðisflokksins væri einfaldlega sú að viðræðunum skyldi slitið. Þegar búið væri að slíta þeim ætti að gæta þess að aldrei yrði aftur farið í aðildarviðræður án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er augljóst og auðskilið, enda urðu Evrópusinnar í öllum flokkum bálreiðir.

Stefna Sjálfstæðisflokksins í kosningunum var því mjög skýr að þessu leyti. Landsfundur hafði ákveðið hana og hann er æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins. Samþykktir landsfundar voru birtar opinberlega og mikið ræddar, ekki síst þessi skýra stefna í Evrópusambandsmálum. Allir gátu því vitað hvað æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins hafði ákveðið.

Forysta og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fylgja nú þessari skýru stefnu. Flokkur sem fylgir skýrri landsfundarsamþykkt sem birt hefur verið opinberlega, er ekki að svíkja einn né neinn.

Menn ættu að ímynda sér dæmi. Segjum að landsfundur hefði ákveðið að kúvenda stefnu flokksins í Evrópusambandsmálum og ákveðið að Sjálfstæðisflokkurinn styddi aðild að Evrópusambandinu. Hvernig hefðu fréttamenn, álitsgjafar, opinberir Samfylkingarmenn og Sjálfstæðir Evrópusinnar látið ef þingmenn flokksins hefðu eftir kosningar ekki fylgt landsfundarsamþykktinni, heldur vísað í einhver orð sem fallið hefðu í kosningabaráttunni og notað þau til að réttlæta það að stefnu flokksins væri ekki fylgt?

Auðvitað hefðu þeir gengið af göflunum. Þeir hefðu sagt að sé stefna flokks mótuð með skýrum hætti á landsfundi, þá gildi hún umfram það sem einstakir frambjóðendur kunni að hafa sagt einhvern tíma í kosningabaráttunni.

Og þá hefðu þeir aldrei þessu vant rétt fyrir sér. Þá kynni að vera tilefni til að tala um svik.

Meginatriðið um stefnu Sjálfstæðisflokksins er það, að æðsta vald flokksins samþykkti og birti opinberlega að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að ekki skyldi gert hlé á aðildarviðræðum heldur skyldi þeim slitið. Þeirri skýru stefnu fylgja þingmenn Sjálfstæðisflokksins nú eftir og í því eru engin svik fólgin.