Þriðjudagur 25. febrúar 2014

Í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir þingkosningar á síðasta ári skrifaði ESB-sinninn Þórir Stephensen í Fréttablaðið:

Á síðustu tveimur landsfundum hefur verið samþykkt, fyrst að fresta en nú að slíta viðræðum og taka þær ekki upp fyrr en að undangengnu þjóðaratkvæði.

Og svo:

Að mínum dómi er það lítilsvirðing við þá, sem aðhyllast frjálsa hugsun, að bjóða upp á það sem flokkurinn gerði í lokaályktun sinni: Að slíta viðræðum, sem hafnar voru að ákvörðun Alþingis, er í raun uppreisn gegn þingræðinu.

Þórir gerði sér góða grein fyrir því að æðsta vald í málefnum Sjálfstæðisflokksins hafði samþykkt að viðræðum við ESB skyldi slitið. Eins og Þórir rakti sló landsfundur einnig þann varnagla að ef menn hæfu slíkar viðræður aftur í framtíðinni skyldi sú ákvörðun borin undir kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um 2.500 ESB-sinnar „lækuðu“ við þessa grein Þóris þar sem hann skammaðist yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi slíta viðræðunum við ESB. Þórir líkti svo ályktunum landsfundarins einkum við þrennt:

Kaþólsku kirkjuna á hinum svörtustu miðöldum, er hún samdi „Skrá yfir bannaðar bækur“. Í öðru sæti eru bókabrennur Hitlers. Í þriðja sæti kemur svo ritskoðun Sovétsins.

Fleiri ESB-sinnar, til dæmis Benedikt Jóhannesson og Helgi Magnússon, sendu Sjálfstæðisflokknum sömuleiðis kaldar kveðjur í kjölfar ályktana landsfundarins um að slíta viðræðunum.

Hvers vegna láta þeir nú eins og stefna Sjálfstæðisflokksins komi þeim í opna skjöldu? Um hvað þykjast ESB-sinnar sviknir? Hitler, Sovétið og miðaldamyrkrið?