Mánudagur 24. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 55. tbl. 18. árg.

Þeir eru til sem segja: Ég hef ekki gert upp hug minn um það hvort Ísland á að ganga í Evrópusambandið. Ég vil að inngöngubeiðnin í það verði ekki afturkölluð heldur vil ég fá að kynna mér málið og taka afstöðu til samnings þegar hann liggur fyrir.

Meðal þeirra sem svona tala eru raunar margir sem lengi hafa verið harðir stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið, þó þeir kjósi stundum að bregða sér í hlutverk hins opna og óráðna manns. En samt er engin ástæða til að efast um að margir aðrir tala með þessum hætti í fullkominni einlægni.

Staðreyndin er hins vegar sú að inngöngubeiðni í Evrópusambandið er allt annar hlutur en fólki er oft sagt. Hún er bein viljayfirlýsing um að land ætli að ganga í Evrópusambandið. Ekki um að land hafi ekki gert upp hug sinn. „Samningaviðræðurnar“ snúast um að fullrúar Evrópusambandins og íslenskir embættismenn fara yfir það hvernig Íslendingum gangi að laga sig að Evrópusambandinu. Ekki öfugt.
Þeir sem segjast ekki vera búnir að gera upp hug sinn, en vilja að inngöngubeiðnin standi áfram, eru í raun að segja þetta:

Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég krefst þess hins vegar að Ísland lýsi því yfir, bæði við Evrópusambandið og önnur lönd, að það hafi ákveðið að ganga í Evrópusambandið. Ég vil að sú staða verði opinberlega í allnokkur ár til viðbótar. Ég vil líka að ríkisstjórn Íslands, sem ekki vill að landið gangi í Evrópusambandið, vinni á næstu árum að því að gera aðildarsamning við Evrópusambandið. Ég vil að lýðræðislega kjörið Alþingi, sem ekki vill að Ísland gangi í Evrópusambandið, einbeiti sér að því á næstu árum að undirbúa íslenska löggjöf fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Ég vil að íslensk stjórnsýsla einbeiti sér á næstu árum að undirbúningi og aðlögun Íslands að inngöngu í Evrópusambandið. Þegar þessu verður öllu lokið eftir einhver ár, þá ætla ég að gera upp hug minn í málinu. Ég ítreka að ég hef alls ekki myndað mér skoðun á málinu. En ég krefst þess samt að Ísland verði áfram umsóknarríki, Ísland segi Evrópusambandinu að það stefni að inngöngu, og stjórnsýslan einbeiti sér að aðlöguninni á næstu árum. Sjálfur hef ég ekki gert upp hug minn.

En þannig getur Ísland ekki staðið að málum. Inngöngubeiðni er yfirlýsing um vilja Íslands til að ganga í Evrópusambandið. Sá vilji er ekki fyrir hendi.