Helgarsprokið 23. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 54. tbl. 18. árg.

Ekki hafa allir stjórnarandstæðingar misst dómgreindina eftir að ríkisstjórnin og þingflokkar hennar ákváðu loksins að afturkalla skuli inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Ögmundur Jónasson þingmaður og fyrrverandi ráðherra vinstrigrænna fjallar um málið í grein á heimasíðu sinni og gerir það af yfirvegun og skynsemi. Það er ekki í fyrsta sinn sem Ögmundur talar af meiri sanngirni og skynsemi en margir samherjar hans.

Í greininni segir Ögmundur meðal annars: 

Ég varð margoft var við það að fulltrúum erlendra ríkja þótti afstaða Íslendinga illskiljanleg, jafnvel ósiðleg, að sækja um aðild en vera síðan í besta falli beggja blands, allt eins andvíg aðild! Ferlið er ekki útgjaldalaust, hvorki fyrir Ísland né ESB. Það er til nokkuð sem heitir að draga menn á asnaeyrum. Þá tilfinningu hef ég orðið var við hjá viðmælendum úr stofnanakerfi ESB. Það er ekki gott fyrir Ísland.

Þetta er það sem margir virðast ekki geta skilið á Íslandi. Í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu felst yfirlýsing um að land vilji ganga í Evrópusambandið. Ekki að menn vilji bara „fá að sjá samninginn“.

Sá sem biður sér konu, eða manns, gerir það af því að hann er búinn að gera það upp við sig að hann vilji giftast þeirri persónu. Bónorðið er ekki sett fram til þess eins að fá að sjá kaupmálann.
Ef meirihluti þingmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið, þá kemur auðvitað ekki til greina að landið haldi áfram að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þegar það liggur fyrir að meirihluti lýðræðislega kjörins þings vill ekki að landið gangi í Evrópusambandið þá blasir við að afturkalla inngöngubeiðnina.

Eitt af því sem nú er sagt með miklum hita, er að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi gert upp hug sinn áður en umræðum um nýja skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans sé lokið. Það sýni að það hafi bara verið sýndarmennska að biðja um þá skýrslu. Þetta er auðvitað vitleysa. Þingmenn vita auðvitað mætavel hvað felst í inngöngu í Evrópusambandið. Þeir eru mjög fljótir að sjá hvort eitthvað í skýrslunni gefur tilefni til að skipta um skoðun á málinu. Menn þurfa ekki að ræða skýrsluna í marga daga til þess að sjá að ekkert í henni gerir aðild að Evrópusambandinu fýsilegri en áður.

Það sama á í raun við um skýrsluna og „samninginn“ sem sumir segjast einmitt verða að „fá að sjá“, til að geta gert upp hug sinn. Það geta allir vitað hvað felst í Evrópusambandsaðild. Samfylkingin er hörð á þeirri skoðun að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ekki þurfti hún að „sjá samninginn“ til að vilja það. Samtök iðnaðarins og sjálfstæðu Evrópusinnarnir sem sífellt eru í fréttum, ekki hafa þeir þurft að sjá samninginn eða bíða eftir neinni skýrslu til að gera upp hug sinn.

Það er skemmtilegt að flestir þeir sem nú tala af sem mestum hita um að þeir verði að fá að „sjá samninginn“, fengu þrisvar að sjá Icesave-samning sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði við Breta og Hollendinga. Þeir vildu samþykkja þá alla. Forkólfanir sem nú fylla fréttatímana og vilja að Ísland verði áfram umsóknarríki að Evrópusambandinu þrátt fyrir að lýðræðislega kjörið Alþingi vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið, þeir vildu af sömu sannfæringu gangast undir alla Icesave-samningana. Þá hétu þeir Áfram, núna heita þeir Já Ísland.

Hverjum dettur í hug að þeir sem vildu samþykkja alla þrjá Icesave-samningana, þurfi að „sjá aðildarsamninginn“ til þess að geta gert upp hug sinn? Þessir forkólfar munu telja hvern einasta samning vera glæsilega niðurstöðu sem Íslendingar eigi að samþykkja, því annars verði þeir ekki þjóð meðal þjóða.