Vefþjóðviljinn 53. tbl. 18. árg.
Forsætisráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag um helstu verkefni og breytingar framundan, meðal annars afnám haftanna.
Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.
Nú er kannski rétt að halda því til haga að fleiri en „vogunarsjóðir“ eiga kröfur í þrotabúin en líklega er ekki jafn áhrifaríkt að tala um lífeyrissjóði, sparifjáreigendur eða aðra lánveitendur gömlu bankanna. Það skapar ekki sömu hughrif um litlu þjóðina sem hrægammar voka yfir.
En hefur annars einhver sem hefur eitthvað með afnám haftanna að gera ljáð máls á því að þrotabú föllnu bankanna verði ein leyst út höftunum á vildarkjörum með þeim afleiðingum að landsmenn sitji uppi með stærri gjaldeyrisvanda?
Hefur einhver íslenskur stjórnmálaflokkur, stjórnmálamaður, embættismaður, fræðimaður eða yfirleitt nokkur maður lýst stuðningi við einhvers konar sérmeðferð þrotabúanna á kostnað landsmanna?